Handbolti

Tandri skoraði meira en Atli Ævar fagnaði sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Ævar Ingólfsson.
Atli Ævar Ingólfsson. Mynd/Fésbókarsíða Eskilstuna Guif
Atli Ævar Ingólfsson og félagar í IK Sävehof unnu þriggja marka sigur í Íslendingaslag á móti Ricoh í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Sävehof vann leikinn 28-25 og hefur þar með unnið fimm af fyrstu sex leikjunum á tímabilinu.

Atli Ævar Ingólfsson skoraði fimm mörk fyrir Sävehof og var þriðji markahæsti leikmaður liðsins í leiknum á eftir Viktor Ottosson sem skoraði sjö mörk og Eric Forsell-Schefvert sem skoraði sex mörk.

Tandri Már Konráðsson var markahæstur hjá Ricoh með átta mörk en Magnús Óli Magnússon skoraði eitt mark.

Ricoh komst í 3-1 í upphafi leiks en eftir það var Sävehof með frumkvæðið í leiknum. Sävehof komst mest fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik en var með tveggja marka forskot í hálfleik, 14-12.  

Sävehof náði fimm marka forskoti í upphafi seinni hálfleiksins og eftir það var á brattann að sækja hjá Ricoh-liðinu. Leikmenn Ricoh komu muninum aftur niður í tvö mörk en nær fóru þeir ekki.

Ricoh-liðið hefur tapað sex fyrstu leikjum sínum á tímabilinu og það stefnir í mjög erfitt tímabil hjá Solna-liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×