„Útlendingastofnun sinnir fyrst og fremst grunnþörfum hælisleitenda, þ.e. húsnæði, mat, hvers konar heilbrigðisþjónustu, o.s.frv. Rauði krossinn hefur tekið við þar sem því sleppir, til dæmis með leikfanga- og fatagjöfum, félagsstarfi, viðburðum og ýmsum stuðningi. Í húsnæðinu er gert ráð fyrir sameiginlegri stofu fyrir íbúa þar sem börn geta leikið sér en vegna fjölda hælisleitenda á landinu er það rými eins og er nýtt til íbúðar. Ekkert sjónvarp er í húsnæðinu eins og sakir standa.“

Hann segir mannþröngina í Bæjarhrauni vera vegna aukins fjölda hælisumsókna sem hafa borist frá því í sumar. Í ágúst og september sóttu 110 manns um hæli í þessum tveimur mánuðum. Það sem af er árinu hafa 218 manns sótt um hæli og búist er við allt að 350 hælisleitendum á árinu.
Aðstæður í móttökustöðinni eru annars ágætar, að sögn hælisleitanda sem gistir þar núna. Sólahringsvakt frá Securitas er á staðnum og þá er einn starfsmaður Útlendingastofnunar með viðveru í húsnæðinu. Þar er jafnframt viðtalsherbergi sem Útlendingastofnun notar fyrir vikulega viðtalstíma. Þráðlaust net er komið upp í húsinu sem íbúarnir eru þakklátir fyrir, það auðveldar þeim að leita sér upplýsinga og vinna að umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi.