Á fimm ára áætlunartíma eru þetta því tæplega 5,8 milljarða króna hækkun á opinberu framlagi sem stofnunin gerir ráð fyrir. Þetta kemur fram í skýrslu um rekstur RÚV.
Lóðin þarf að seljast
Í skýrslunni kemur einnig fram að ekki má neitt út af bregða vegna byggingarréttarsölu á lóð fyrirtækisins. Reiknað er með 1.500 milljóna króna tekjum af sölunni.

Óhagstæð vaxtakjör
Skuldin nemur 3,2 milljörðum króna en þar sem hún var tilkomin áður en rekstrarformi RÚV var breytt í ohf, eða opinbert hlutafélag, hvílir á því ríkisábyrgð. Skuldabréfið er til ársins 2025, verðtryggt og með fasta 5 prósent vexti.
Það er mat nefndarinnar sem skrifaði skýrsluna að vaxtakjör séu óhagstæð. „Markaðsvextir skuldabréfa Íbúðalánasjóðs, sem jafnframt bera ríkisábyrgð, eru nú um 2,6%. RÚV er því að greiða um 77 m.kr. á ári í vexti umfram núverandi markaðsvexti láns með ríkisábyrgð,“ segir í skýrslunni.
Hækki útvarpsgjaldið ekki og taki ríkissjóður ekki yfir skuld fyrirtækisins við LSR má reikna með að taprekstur RÚV verði orðinn milljarður króna á tímabilinu 2019-2020. Enn verri staða blasir við verði ekki hægt að nýta sölu byggingaréttar til niðurgreiðslu skulda.

Í skýrslunni segir að RÚV sé með um fjórðungi hærri heildartekjur á íbúa en meðaltal samanburðarlanda. Inni í þeim tölum eru bæði ríkisframlag og aðrar tekjur, svo sem auglýsingatekjur.
„Til að bera saman tekjur systurstofnana er varasamt að bera saman útvarpsgjald eða afnotagjald þar sem reglur um slíkt eru afar mismunandi. Sum ríki innheimta gjald af hverju heimili, sum hafa afslætti fyrir ýmsa hópa,“ segir í skýrslunni um þennan samanburð.
Norska ríkisútvarpið NRK er með svipaðar heildartekjur á íbúa og RÚV. Heildartekjur Breska ríkisútvarpsins á íbúa er lægri, sem og tekjur danska, finnska og sænska ríkisútvarpsins.
Skýrsluna í heild má lesa hér að neðan.