Cosby er sakaður um að hafa byrlað fjölda kvenna ólyfjan og misnotað þær kynferðislega. Hafa fjöldi fórnarlamba hans stigið fram og sagt frá misnotkuninni og hafa fjöldi fyrrverandi samstarfsmanna og vina afneitað honum með öllu.
Myndbandið var birt á vef bandaríska tímaritsins Latina en þar tekur Cosby viðtal við hina lítt þekktu, á þeim tíma, Vergara í TheLateShow árið 2003. Cosby var gestastjórnandi í fjarveru Davids Letterman sem glímdi við veikindi á þeim tíma.
Hver mínúta af viðtalinu er afar óþægileg áhorfs sökum þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir um grínistann. Cosby starir á Vergara og hrósar útlit hennar og klæðnaði og segir hana gera hann „spenntan“.
„S-Y-N-D, er synd,“ segir Cosby til að mynda við Vergara. „Karlmenn horfa á þig, og þeir hugsa bara um synd.“
Þegar Cosby tók viðtalið við Vergara sat hann ekki á bak við skrifborð líkt og Letterman heldur settist hann í stól sem var við hliðina á Vergara og venjulega ætlaður gestum. „Þú gerir það að verkum að mér finnst ég vera ungur aftur. Þú gerir mig, ummm, æstan. Horfðu á mig.“
Eftir að viðtalið komst aftur í umferð hefur Sofia Vergara lýst því yfir að hún hafi ekki orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu Cosbys.
Hægt er að horfa á viðtalið í heild hér fyrir neðan: