„Ísrael er sterki aðilinn á svæðinu,“ segir Björn. „Hins vegar er það alveg rétt sem kom fram í máli sendiherrans í dag að það þarf tvo til þegar deila stendur og það er ljóst að Palestínumenn þurfa einnig að taka til í sínum viðhorfum.“
Í bréfinu til Schutz segir meðal annars að ríkisstjórn Ísraels þurfi að hætta öllu ofbeldi gagnvart Palestínumönnum og rífa múrinn sem reistur var þvert yfir Vesturbakkann snemma á þessari öld.

„Það var að sama skapi jákvætt fyrir okkur að fá tækifæri til að viðra okkar sjónarmið við hann milliliðalaust,“ segir Björn. „Hann tók bréfinu mjög vel, þetta var allt á „civiliseruðum“ nótum. Það er auðvitað bara verið að hvetja hann til að koma þessu áfram til sinna yfirvalda.“
Flókið að útfæra friðsamleg mótmæli
Tildrög fundarins voru auðvitað umdeild tillaga um viðskiptaþvinganir Reykjavíkurborgar gagnvart Ísraelsríki sem borgarráð samþykkti í september og dró síðar til baka. Tillagan olli miklu fjaðrafoki og hafa borgarfulltrúar meirihlutans sagt að ekki hafi nægilega verið staðið að undirbúningi hennar.
Landsfundur Vinstri Grænna samþykkti þó um helgina að fela borgarfulltrúa flokksins, Sóleyju Tómasdóttur, að leggja slíka tillögu þó fram að nýju.
„Það er nokkuð flókið að útfæra friðsamleg mótmæli. Ég held samt að það sé mjög mikilvægt að þetta mál fari í markvisst ferli þar sem við vinnum þetta, helst með frændum okkar á Norðurlöndunum, og skoðum hvernig væri hægt að útfæra hugsanlega sniðgöngu,“ segir Björn um mögulega nýja útfærslu á tillögunni. „Ég myndi vilja gera þetta á vettvangi höfuðborga Norðurlandanna ef við ætlum að taka þetta lengra.“