Handbolti

Aron ein stærsta ástæða þess að Veszprém er besta liðið í Evrópu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson er einn besti leikmaður heims.
Aron Pálmarsson er einn besti leikmaður heims. vísir/epa
Aron Pálmarsson og félagar hans í MVM Veszprém frá Ungverjalandi eru besta liðið í Meistaradeildinni í handbolta að mati fimm evrópskra handboltasérfræðinga.

Sex umferðum af fjórtán er lokið í A og B riðlum Meistaradeildarinnar þar sem bestu liðin spila, en Veszprém er í öðru sæti A-riðils eftir að tapa sínum fyrsta leik gegn Paris Saint-Germain um síðustu helgi.

Sjá einnig:Aron sýndi að hann er einn sá besti | Sjáðu mörkin og stoðsendingarnar

Á heimasíðu Meistaradeildarinnar er birtur samanlagður styrkleikalisti sem byggður er á mati sérfræðinganna Tom O’Brannagain frá Írlandi, Peter Bruun frá Danmörku, Nemanja Savic frá Serbíu, Kevin Domas frá Fraklandi og Björn Pazen frá Þýskalandi.

„Ungverska liðið var fyrst til að vinna í Zagreb og er búið að leggja bæði Flensburg og Kiel að velli. Tapið gegn PSG var að stærstum hluta meiðsla liðsins að kenna en Lazlo Lagy, Christian Zeitz og Peter Gulyas voru allir meiddir,“ segir í umsögn um liðið.

Ein stærsta ástæða þess að Veszprém-liðið er svona gott er koma Arons Pálmarssonar sem skipti yfir frá Kiel í sumar.

„Veszprém lítur svo frábærlega út vegna fjölbreytileikans í sóknarleiknum,“ segja sérfræðingarnir og benda sérstaklega á Aron Pálmarsson og Króatann Ivan Sliskovic.

Makedónska ofurliðið HC Vardar er talið næst besta liðið á þessu stigi keppninnar og Róbert Gunnarsson og félagar í PSG eru í þriðja sæti.

Sænska liðið Kristianstad hefur staðið sig frábærlega og er í fjórða sæti listans á þessu stigi keppninnar. Svíarnir eru þar á undan, Kiel, HC Zagreb, Flensburg, Löwen og Evrópumeisturum Barcelona.

Tíu bestu liðin að mati séfræðinganna:

1. Veszprém, Ungverjalandi

2. HC Vardar, Makedóníu

3. Paris Saint-Germain, Frakklandi

4. IFK Kristianstad, Svíþjóð

5. Kiel, Þýskalandi

6. HC Zagreb, Króatíu

7. Flensburg, Þýskalandi

8. Naturhouse La Rioja, Spáni

9. Rhein-Neckar Löwen, Þýskalandi

10. Barcelona, Spáni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×