Handbolti

Guðmundur vann heims- og Evrópumeistara Frakka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins. Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson stýrði danska landsliðinu til sigurs á  heims-, Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakka í kvöld í fyrsta leiknum á æfingamótinu í Noregi.

Danir unnu Frakka 23-22 en Frakkar skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins og sigurinn var því öruggari en tölurnar gefa til kynna.

Gulldeildin heldur áfram í kvöld þegar Norðmenn taka á móti Íslendingum.

Mörkin dreifðust vel hjá lærisveinum Guðmundar. Mikkel Hansen var markahæstur með fjögur mörk en átta leikmenn skoruðu síðan tvö mörk.

Mikkel Hansen var valinn maður leiksins en dönsku fjölmiðlunum fannst þó að markvörðurinn Niklas Landin hefði átt þau verðlaun meira skilin.

Danir tóku frumkvæðið í byrjun leiks og komust bæði í 3-1 og 5-3 í upphafi leiks. Frakkar fóru þá í gang, skoruðu þrjú mörk í röð og komust yfir í 6-5.

Frakkar voru síðan 7-6 yfir þegar 10 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum en þá náðu Danir frábærum kafla.

Danska liðið skoraði fimm mörk í röð og fékk ekki á sig mark í fimmtán mínútur.

Claude Onesta, þjálfari Frakka, þurfti að taka leikhlé í stöðunni 11-7 fyrir Dani en þá voru tæpar sex mínútur eftir af hálfleiknum.

Frakkar minnkuðu muninn niður í tvö mörk í tvígang en Peter Balling Christensen skoraði á lokasekúndum hálfleiksins og Danir voru því 13-10 yfir í hálfleik.

Danir bættu við í upphafi seinni hálfleiksins og voru komnir sex mörkum yfir, 17-11, eftir rúmlega átta mínútna leik.

Danir voru með gott forskot allan hálfleikinn eða þar til tvær síðustu mínúturnar þegar Frakkar skoruðu þrjú mörk í röð á stuttum tíma og settu með því spennu í leikinn.

Guðmundur tók þá leikhlé og Danir náðu að spila út síðustu sóknina og tryggja sér sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×