Fótbolti

Messi verður kóngurinn af El Clásico skori hann gegn Real um helgina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi er í kapphlaupi við tímann vegna meiðslanna.
Lionel Messi er í kapphlaupi við tímann vegna meiðslanna. vísir/getty
El Clásico, viðureign Real Madrid og Barcelona, einn af stærstu leikjum hvers tímabils í Evrópufótboltanum, fer fram á laugardaginn og verður vitaskuld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Lionel Messi getur bætt enn eitt metið á sínum ferli skori hann í leiknum á laugardaginn, en með marki verður hann einn markahæstur í El Clásico-leikjum í spænsku 1. deildinni.

Messi er nú jafn Real-goðsögninni Alfredi Di Stefáno með 14 mörk í deildarleikjum gegn Barcelona og fer einn á toppinn með marki á laugardaginn.  Hann er nú þegar markahæstur í sögu El Clásico þegar allar keppnir eru teknar með, en Messi hefur skorað 21 mark á sínum ferli gegn Real Madrid.

Alfredo Di Stéfano er í öðru sæti með 18 mörk og þeir Raúl González og Cristiano Ronaldo 15 mörk hvor. Ronaldo er „aðeins“ búinn að skora sjö mörk gegn Barcelona í deildinni og er þar langt á eftir Messi.

Ronaldo hefur aftur á móti skorað fimm mörk á móti Barcelona í spænska konungsbikarnum, en Messi á enn eftir að skora bikarmark á móti Real Madrid.

Það stendur þó tæpt að Messi geti verið með á laugardaginn vegna meiðsla. Hann hefur ekki verið með Barcelona-liðinu síðan í september en Argentínumaðurinn sneri aftur til æfinga í vikunni og vonast til að koma við sögu á laugardaginn.

Barcelona er þremur stigum á undan Real Madrid á toppnum og getur stungið af með sigri á Santiago Bernabéu á laugardaginn. Heimamenn í Real Madrid þurfa helst á sigri að halda til að missa Börsunga ekki of langt fram úr sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×