Handbolti

Vítaklúður í lokin og Atli Ævar fagnaði sigri í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Ævar Ingólfsson.
Atli Ævar Ingólfsson. Mynd/Heimasíða GUIF
Atli Ævar Ingólfsson og félagar í Sävehof unnu dramatískan eins marks sigur á útivelli á móti Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Hammarby-liðið klikkaði á vítakasti sekúndu fyrir leikslok og Sävehof fagnaði sigri í þessum Íslendingaslag.

Lucas Pellas skaut í stöngina úr vítinu en það var annað vítið sem hann klúðraði í leiknum.

Örn Ingi Bjarkason kom ekki á blað hjá Hammarby en Atli Ævar skoraði tvö mörk fyrir Sävehof.

Hammarby var í góðum málum fram eftir leik, komst í 3-0 og var 12-9 yfir í hálfleik.

Í stöðunni 18-15 fyrir Hammarby skoraði Sävehof fjögur mörk í röð og komst yfir. Sävehof var síðast þremur mörkum yfir, 24-21, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir.

Hammarby náði að jafna metin þegar rúm mínúta var eftir en Johan Fagerlund skoraði sigurmarkið þegar 33 sekúndur voru eftir af leiknum.

Sävehof komst upp í annað sætið með þessum sigri en liðið hefur unnið 11 af fyrstu 14 leikjum sínum á tímabilinu. Hammarby er í sjöunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×