Handbolti

Guðjón Valur náði ekki að skora í kvöld | Barca vann toppslaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Getty
Barcelona vann ellefu marka sigur á Naturhouse La Rioja í fjórtándu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld en Barcelona hefur unnið alla fjórtán deildarleiki sína á tímabilinu.

Þetta var samt toppslagur því Naturhouse La Rioja er í öðru sæti deildarinnar en nú fimm stigum á eftir Börsungum.

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, var í byrjunarliði Barcelona í kvöld en tókst ekki að skora úr tveimur skotum sínum.

Varamaður hans, Aitor Arino, átti hinsvegar stórleik og nýtt öll sjö skotin sín.

Aitor Arino var markahæstur hjá Barcelona ásamt Víctor Tomás sem skoraði sjö mörk úr átta skotum.

Kiril Lazarov skoraði fimm mörk og þeir Raul Entrerrios og Wael Jallouz voru með fjögur mörk hvor.

Það er ekki á hverjum degi sem Guðjón Valur Sigurðsson nær ekki að skora en hann hefur skorað 57 mörk í 14 leikjum á tímabilinu og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins á eftir Kiril Lazarov.

Kiril Lazarov hefur skorað 30 af 67 mörkum sínum úr vítum þannig að Guðjón Valur hefur skorað flest mörk allra leikmanna Barcelona utan af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×