Íslenska karlalandsliðið í fótbolta dettur niður um fimm sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gerður var opinber í morgun.
Ísland er í 36. sæti listans og er ekki lengur efsta Norðurlandaþjóðin á listanum.
Svíar hoppa upp um heil tíu sæti og eru nú í 35. sæti eða einu sæti ofar en Ísland. Bandaríkjamenn komust einnig upp fyrir Ísland en þeir fóru upp um eitt sæti og í sæti númer 32.
Íslenska landsliðið hefur þar með lækkað um þrettán sæti á listanum á tveimur mánuðum eða síðan að liðið var í 23. sæti í október.
Danir lækka um sjö sæti að þessu sinni og eru nú í 42. sæti listans. Þeir eru bara einu sæti ofar en Finnar sem fóru upp um heil þrettán sæti að þessu sinni.
Norðmenn lækka um átta sæti (54. sæti) og Færeyingar eru í 97. sæti eða átta sætum neðar en á síðasta lista.
Belgar eiga áfram besta knattspyrnulandslið heims samkvæmt FIFA-listanum en Argentínumenn komust upp í annað sætið og Spánverjar hækkuðu um þrjú sæti sem skilar þeim í 3. sætið.
Heimsmeistarar Þjóðverja eru nú komnir niður í fjórða sæti og Portúgalar lækka um þrjú sæti og er nú í sæti númer sjö.
Það er hægt að sjá allan listann hér.
