Handbolti

Santos búinn að semja við Kiel

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Raul Santos í leik með Gummersbach.
Raul Santos í leik með Gummersbach. vísir/getty
Þýska meistaraliðið Kiel hefur staðfest að austurríski hornamaðurinn Raul Santos sé búinn að skrifa undir samning við félagið.

Hann kemur til félagsins frá Gummersbach næsta sumar. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.

„Þetta er risastórt skref á mínum ferli. Það verður einstakt fyrir mig að spila alla heimaleiki fyrir framan troðfullu húsi áhorfenda. Ég fékk alltaf gæsahúð er ég kom þangað til að spila," sagði Santos sem er mikil markamaskína.

Þjálfari Kiel, Alfreð Gíslason, er ánægður með liðsstyrkinn en það verður mikil samkeppni um vinstri hornamannsstöðuna en þar er fyrir Rune Dahmke en hann hefur verið frábær síðan Guðjón Valur Sigurðsson fór til Barcelona.

„Santos er aðeins 23 ára en hefur tekið rosalegum framförum á síðustu árum. Hann er þegar orðinn reynslumikill og einn af bestu leikmönnum deildarinnar," sagði Alfreð.

Santos er fæddur í dómínikanska lýðveldinu en flutti ellefu ára gamall til Austurríkis. Hann var næstmarkahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×