Handbolti

Enn meiðist Þorgerður Anna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorgerður Anna Atladóttir.
Þorgerður Anna Atladóttir. Vísir
Þorgerði Önnu Atladóttur hefur verið enn og aftur kippt niður á jörðina vegna nýrra meiðsla, eftir því sem kemur fram á handball-world.com.

Þorgerður Anna var nýkomin aftur af stað eftir krossbandsslit þegar hlé var gert á þýsku úrvalsdeildinni vegna HM í handbolta en Þorgerður Anna leikur með Leipzig þar í landi.

Sjá einnig: Var erfitt að vakna á morgnana

Nú, rétt áður en deildin fer aftur af stað, er ljóst að endurkomu hennar seinkar enn frekar.

Þorgerður Anna fékk samkvæmt fréttinni þursabit á dögunum og hefur hún nú verið greind með brjósklos í baki. Óljóst er hversu lengi hún verður frá en búast má við að það verði í langan tíma, ef marka má áðurnefnda frétt.

Þetta er enn eitt áfallið fyrir landsliðskonuna sem hefur ekki spilað handboltaleik án þess að kenna sér meins í tæp þrjú ár. Eftir langa baráttu við axlarmeiðsli sleit hún krossband í hné, sem áður segir.

Hún samdi við Leipzig sumarið 2014 en hefur ekki náð að spila deildarleik með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×