Handbolti

Íslendingarnir með sex af sjö síðustu mörkum Ricoh

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tandri var öflugur á lokakaflanum gegn Ystads.
Tandri var öflugur á lokakaflanum gegn Ystads. mynd/heimasíða ricoh
Tandri Már Konráðsson var hetja Ricoh sem vann nauman eins marks sigur, 23-22, á Ystads í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Tandri skoraði sigurmark Ricoh þegar 1:39 mínútur voru eftir af leiknum en þessi öfluga skytta gerði alls sex mörk í leiknum, þar af fjögur af fimm síðustu mörkum Ricoh.

Magnús Óli Magnússon stóð einnig fyrir sínu en hann skoraði tvö mikilvæg mörk á lokakafla leiksins, og þrjú í heildina. Íslendingarnir í liði Ricoh skoruðu sex af síðustu sjö mörkum liðsins sem var fjórum mörkum undir, 16-20, þegar 20 mínútur voru til leiksloka.

Sigurinn var mikilvægur fyrir Ricoh sem var búið að tapa þremur leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld. Liðið er í 11. sæti deildarinnar með 11 stig.

Kristianstad komst aftur á sigurbraut þegar liðið vann öruggan 10 marka sigur, 33-23, á Hammarby á heimavelli.

Kristianstad hefur unnið 19 af 20 leikjum sínum á tímabilinu en liðið er með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar.

Ólafur Guðmundsson skoraði fimm mörk og var markahæstur í liði Kristianstad ásamt Iman Jamali Moorschega. Ólafur gaf einnig fjórar stoðsendingar á félaga sína.

Örn Ingi Bjarkason skoraði fjögur mörk fyrir Hammarby sem er í 8. sæti með 22 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×