Björn Jörundur Friðbjörnsson fann réttu fötin fyrir undankeppni Eurovision í versluninni JÖR en hann stígur á svið á laugardag.
„Guðmundur Jörundsson er frændi minn og nafnið kemur frá Hákarla-Jörundi í Hrísey. Við erum báðir undan honum og berum nafnið hans saman,“ segir Björn léttur í lundu. „Við Jörarnir höfum báðir einfaldan smekk og veljum aðeins það besta.“
Björn telur að nýju fötin eigi eftir að hjálpa honum mikið. „Góð jakkaföt auka líkurnar á að manni líði vel á sviðinu í Jöróvísjón.“ Hann hlakkar til keppninnar og segir æfingarnar ganga frábærlega. „Nú erum við að æfa okkur í að taka höfnun með brosi á vör, maður veit aldrei hvað gerist,“ bætir Björn við og hlær.
