Innlent

Lög á verkfallsaðgerðir ekki til umræðu

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.
„Það er algert neyðarúrræði eins og ég horfi á hlutina,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um að setja lögbann á verkfallsaðgerðir sem í gangi eru. „Það hefur aldrei komið til tals í þessum viðræðum sem nú standa yfir,“ sagði Bjarni í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær.

Hann sagði að staðan væri mjög snúin þar sem miklar væntingar væru á lofti. Bjarni sagði að finna yrði leiðir til að mæta kjaravæntingum fólks á sama tíma og halda yrði efnahagslífinu stöðugu.

„Við erum með ramma utan um vinnumarkaðinn sem gengur ekki upp,“ sagði hann. „Þetta fyrirkomulag, að smáir hópar geti tekið litlar stofnanir í gíslingu til að knýja fram niðurstöðu í sínum kjaraviðræðum, getur sett vinnumarkaðinn í uppnám sem leiðir yfir þjóðfélagið síðan verðbólgu,“ sagði Bjarni sem vill breyta fyrirkomulagi kjaramála.

Verkföll dýralækna hafa haft nokkrar afleiðingar í kjötvöruframleiðslu en Charlotta Oddsdóttir, talsmaður dýralækna, hafnar því að verkföll séu á kostnað dýravelferðar. „Það er eitthvað sem dýralæknar vilja vísa til föðurhúsanna. Samkvæmt lögum er það dýraeigandi eða sá sem heldur dýr sem ber ábyrgð á velferð sinna dýra. Dýralæknar eru opinberir starfsmenn og okkur er mjög í mun að dýravelferð verði ekki undir í þessari kjarabaráttu. En auðvitað er það svo að ef það koma inn tilkynningar þar sem bændur hafa virkilega áhyggjur þá eru öll þau mál skoðuð,“ sagði Charlotta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×