Skoðun

Að stofna eigið fyrirtæki er nú eftirsóknarverður kostur

Salóme Guðmundsdóttir skrifar
Nýsköpunarfyrirtæki þjóna lykilhlutverki í hagkerfinu vegna framlags þeirra til tækniframfara og nýrrar þekkingar. Vöxtur slíkra fyrirtækja er forsenda þess að við Íslendingar getum skotið fleiri stoðum undir útflutning okkar og aukið framleiðslugetu landsins á komandi árum.

Undanfarinn áratug hafa orðið töluverðar breytingar á stuðningsumhverfi frumkvöðla hér á landi. Það urðu vissulega til nokkur öflug fyrirtæki, en frumkvöðlar unnu hver í sínu lagi og lítið var um skipulagða viðburði. Háskólarnir buðu upp á námskeið tileinkað nýsköpun og stofnun fyrirtækja en það skorti vettvang til stuðnings og eftirfylgni fyrir þær hugmyndir sem þar spruttu upp. Upplýsingar um það hvernig frumkvöðlar skyldu bera sig að í upphafi voru jafnframt ekki nægilega aðgengilegar.

Almennt séð var lítil þekking á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í þjóðfélaginu og henni ekki gert hátt undir höfði. Frumkvöðlar voru jafnvel álitnir hálfgerðir sérvitringar. Nýútskrifaðir nemendur háskólanna horfðu til fjármálageirans og annarra stórfyrirtækja sem fyrsta kost fyrir framtíðarstarf, en sprotafyrirtæki voru ekki á ratsjánni.

Með aukinni umfjöllun um árangur íslenskra fyrirtækja á borð við CCP, QuizUp, Meniga, Datamarket, GreenQloud og Marorku hafa orðið til sífellt fleiri fyrirmyndir innan sprotasamfélagsins. Alþjóðleg stórfyrirtæki eins og Apple, Google, Facebook og Spotify sem notið hafa mikillar velgengni og gjarnan eru flokkuð sem fyrirmyndar sprotafyrirtæki hafa einnig áhrif á viðhorf og ímynd frumkvöðla. Að stofna eigið fyrirtæki er nú viðurkenndur og ekki síður eftirsóknarverður valkostur.

Árlega eru haldnir yfir 300 viðburðir í tengslum við frumkvöðlastarf á Íslandi og framboð sérsniðinnar vinnuaðstöðu fyrir frumkvöðla hefur aldrei verið betra. Með hugsjón lykilaðila innan sprotasenunnar; reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga, ásamt stuðningi háskólasamfélagsins og hins opinbera, hefur orðið til öflugt frumkvöðlasamfélag á Íslandi á síðustu árum.

Ein meginástæða þess árangurs sem náðst hefur er að mínu mati sú ríka áhersla sem lögð hefur verið á að horfa til erlendra fyrirmynda varðandi áherslur og val verkefna. Með viðskiptahröðlum og öðrum alþjóðlegum samstarfsverkefnum hefur orðið til ný reynsla og þekking auk tengsla sem hafa orðið til þess að við höfum öðlast færni til að geta svarað betur þörfum frumkvöðla á seinni stigum, þ.e. við undirbúning fyrir fjármögnun og sókn á erlenda markaði.

Mikilvægt er því að markvisst sé unnið að því að koma framúrskarandi sprotafyrirtækjum á framfæri og þau verði fengin til að deila reynslu sinni til að hvetja aðra frumkvöðla og hugmyndasmiði til dáða. Það er ekki síður mikilvægt að þær reynslusögur nái út fyrir landsteinana til að vekja athygli á áhugaverðum fjárfestingarkostum á Íslandi. Gott samstarf við fremstu sprotasamfélög heims skiptir meginmáli til að tryggja að við séum í takt við tímann. Með virkum alþjóðlegum tengslum skapast raunveruleg tækifæri til verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×