
Tímafrekt og flókið að nálgast gögn um heilsufar hælisleitenda

Þetta kemur fram í minnisblaði Útlendingastofnunar vegna fyrirspurnar innanríkisráðuneytisins sem lögð var fram í kjölfar þess að tveimur albönskum fjölskyldum var vísað úr landi í desember síðastliðnum.
Í báðum fjölskyldum eru langveik börn, þeir Kevi sem glímir við ólæknandi slímseigjusjúkdóm og Arjan sem er með hjartagalla. Fjölskylduranr komu til landsins í vikunni eftir að Alþingi veitti þeim ríkisborgararétt í kjölfar þess að þeim var vísað úr landi. Mörgum blöskraði að langveik börn skyldu send úr landi, og það til Albaníu þar sem umdeilt er hvort drengirnir tveir geti fengið þá læknisþjónustu sem þeir þurfa.
Var Útlendingastofnun harðlega gagnrýnd fyrir málsmeðferð á umsóknum fjölskyldnanna og óskaði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, því eftir upplýsingum frá stofnuninni hvernig staðið væri að þessum málum, ekki síst þegar börn væru annars vegar.
Stofnunin telur aðferðir sínar fullnægjandi til að tryggja hagsmuni og réttinda umsækjenda
Útlendingastofnun svaraði ráðherra í seinustu viku. Í minnisblaðinu kemur fram að stofnunin telji „úrlausnir sínar er varða heilbrigðisaðstæður fólks og dvalarleyfi af mannúðarástæðum og þær aðferðir sem beitt er í þeim fullnægjandi til að tryggja hagsmuni og réttindi umsækjenda.“ Engu að síður sé nauðsynlegt að huga stöðugt að því hvernig bæta megi málsmeðferðina.
Rannsókn Útlendingastofnunar á því hvort einstaklingur geti átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé tvíþætt. Annars vegar þarf að kanna heilsufar viðkomandi og hins vegar hvort nauðsynleg heilbrigðisjónusta sé til staðar í heimaríki viðkomandi og hvort hún sé aðgengileg.
Meðal þess sem litið er til varðandi sjúkdóminn er hversu alvarlegur hann er, hvers konar læknisaðstoð eða meðferð viðkomandi þarf á að halda og hvort forsvaranlegt sé að rjúfa meðferð svo unnt sé að flytja viðkomandi til heimalands síns.
Í tilviki barns þarf sjúkdómurinn þó ekki að vera eins alvarlegur og hjá fullorðnum einstaklingi, auk þess sm læknisaðstoð eða meðferð barnsins þarf ekki að vera eins nauðsynleg. Einnig eru viðmið um hvenær forsvaranlegt er að rjúfa meðferð strangari.
Vegna þess að oft reynist tímafrekt og flókið að fá upplýsingar um heilsufar hælisleitenda vill stofnunin að kannað verði hvort hægt sé að koma á verkferlum eða leiðbeiningum um hvert skuli leita og skilgreina þannig hóp lækna sem veitt geta aðstoð og leiðbeiningar. Telur stofnunin að með slíku fyrirkomulagi verði til ákveðin sérþekking á málefnum hælisleitendum og sérstökum þörfum þeirra.
Minnisblað Útlendingastofnunar má nálgast í viðhengi hér að neðan.
Tengdar fréttir

Skilur að það þyki „skjóta skökku við“ að taka á móti fjölda sýrlenskra flóttamanna á meðan öðrum er vísað úr landi
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, út í mál sýrlenskrar fjölskyldu sem var hafnað um efnislega meðferð á hælisumsókn sinni í haust þar sem þau höfðu þegar fengið hæli í Grikklandi.

„Ég er birtingarmynd málsins“
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, segist ekki hafa komið að málefnum fjölskyldnanna frá Albaníu.

Ráðherra hefur óskað eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun vegna langveiku drengjanna
Málefni tveggja albanskra fjölskyldna sem vísað var frá landinu í liðinni viku voru til umræðu á Alþingi í morgun.

Mikil reiði og örvænting vegna albönsku fjölskyldunnar
Ólöf Nordal og ríkisstjórnin öll fordæmd vegna brottrekstrar barnafólks af landinu.

Aðstæður í Albaníu óboðlegar börnum
Brottvísun tveggja albanskra fjölskyldna hefur vakið mikla reiði í samfélaginu síðastliðinn sólarhring. Sérstaklega vegna veikinda tveggja ungra drengja. Í annað sinn á hálfu ári er flugvél leigð undir hóp albanskra hælisleitenda til að senda þá úr landi.