Stöð tvö hitti þau Wael Aliyadah og Feryal Aldahas síðast í desember þegar Útlendingastofnun var afhent tæplega 5000 undirskriftir við beiðni um að mál fjölskyldunnar fengi efnislega meðferð. Þeim hafði verið tilkynnt að þau yrðu send aftur til Grikklands, þar sem þau bjuggu á götunni um tíma eftir að hafa flúið stríðið í Sýrlandi.

Í dag fékk fjölskyldan hinsvegar dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Gleðin var allsráðandi þegar hjónin sóttu dætur sínar á leikskólann í dag, líka hjá starfsfólkinu, sem afhenti þeim blómvönd skreyttan íslenska fánanum í tilefni dagsins.
Elín Mjöll Jónasdóttir leikskólastjóri segir að telpurnar tvær, þær Jouli og Jana, hafi notið sín vel á leikskólanum, eignast vini og séu mjög opnar fyrir því að læra íslensku. „Við erum búnar að hafa þær hérna síðan í október og þetta var bara gleðistund. Fyrir alla,“ segir Elín.

Wael segist ekki hafa vitað á hverju var von í morgun. „Ég vakna snemma alla daga til að fara með dætur mínar í leikskólann klukkan átta. Og konan mín hringdi í mig og sagði mér að lögmaðurinn okkar hefði haft samband frá Rauða krossinum. Konan mín var hrædd um að nú fengjum við slæm tíðindi en ég sagði að það gæti ekki verið. Nú erum við svo hamingjusöm, því undanfarna mánuði höfum við beðið þess að verða send burt frá Íslandi. Við vorum hrædd."
Dvalarleyfi af mannúðarástæðum er aðeins veitt í undantekningartilvikum þegar umsókn um hæli hefur verið synjað, ef rík ástæða þykir til vegna félagslegra aðstæðna. Wael og Feryal eru hamingjusöm á Íslandi en þeim hefur þótt erfitt að þurfa að sitja aðgerðarlaus í allan vetur.
Telja sig nú nógu örugg til að eignast annað barn
Nú segjast þau loksins geta byrjað nýtt líf. Wael fékk hjálp íslenskrar fjölskyldu við að sækja um vinnu og segist þegar hafa fengið starf, þar sem hann geti byrjað um leið og þeim hafi verið úthlutað kennitölu. Og það eru ekki einu gleðitíðindin, því hjónin eiga nú von á sínu þriðja barni.
„Áður, á meðan við vorum í Sýrlandi, kom það ekki til greina en núna getum við leyft okkur að eignst þriðja barnið. Við elskum börn," segir Wael.