Handbolti

Áttundi sigurinn í röð hjá Aroni og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/EPA
Aron Pálmarsson og félagar í ungverska liðinu Veszprém KC héldu sigurgöngu sinni áfram í SEHA-deildinni í dag. Veszprém vann þá ellefu marka sigur á RK Zagreb frá Króatíu, 38-27.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum en þetta kom nær allt á fyrstu sextán mínútum leiksins þegar Veszprém komst í 8-4.

Aron kom Veszprém-liðinu í bæði 6-3 og 7-4 og var þá einnig búinn að gefa tvær stoðsendingar á félaga sína. Eftir það bar þó ekki mikið á íslenska landsliðsmanninum.  

Veszprém var sex mörkum yfir í hálfleik, 18-12, munurinn var minnstur þrjú mörk í seinni hálfleiknum en sigurinn var aldrei í hættu. Lokamínúturnar voru síðan algjör einstefna hjá leikmönnum Veszprém.

Cristian Ugalde var markahæstur í liði Veszprém með sjö mörk en Mate Lekai skoraði sex mörk og þeir Momir Ilic, Gasper Marguc og Renato Sulic voru allir með fjögur mörk.

SEHA-deildin er deild milli bestu handboltaliða frá suðaustur hluta Evrópu en þar eru topplið frá Króatíu, Ungverjalandi, Makedóníu, Serbíu auk liða frá Hvíta-Rússlandi, Bosníu, Svartfjallalandi og Slóvakíu.

Veszprém KC er komið með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar og á auk þess leik inni á liðið í öðru sæti sem er RK Vardar. RK Zagreb átti möguleika á að minnka forystuna í tvö stig með sigri í leiknum í kvöld en er áfram í þriðja sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×