Handbolti

Duvnjak reyndist Alfreð afar vel í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Vísir/Getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í THW Kiel enda riðlakeppni Meistaradeildarinnar í handbolta á þriggja leikja sigurgöngu eftir tveggja marka heimasigur á króatíska liðinu RK Zagreb.

Kiel þurfti vissulega að hafa mikið fyrir sigrinum í kvöld en vann á endanum 31-29.

Króatinn Domagoj Duvnjak var markahæstur hjá Kiel með tíu mörk úr aðeins ellefu skotum og Dominik Klein skoraði sjö mörk.

Kiel byrjaði ágætlega og komst í 5-3 í upphafi leiks og var einnig yfir 8-6 og 9-7. Króatarnir enduðu fyrri hálfleikin hinsvegar vel og komust þremur mörkum yfir fyrir hálfleik, 17-14.

Luka Sebetic skoraði 6 mörk út 6 skotum fyrir Zagreb-liðið í fyrri hálfleiknum en það gekk betur hjá Kiel að stoppa hann í seinni hálfleiknum. .

Kiel lenti mest fimm mörkum undir í upphafi seinni hálfleiks, 15-20, en þýska liðið skoraði þá fimm mörk í röð á átta mínútum og jafnaði metin í 20-20.

Kiel komst síðan yfir í kjölfarið og landaði sigri í lokaleik sínum í riðlakeppninni.

Kiel vann átta af fjórtán leikjum í riðlakeppninni og endaði í fjórða sæti síns riðils á eftir Paris Saint-Germain, MVM Veszprém og Flensburg-Handewitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×