Handbolti

Fjögur mörk Karenar dugðu ekki til í úrslitaleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karen skoraði fjögur mörk í úrslitaleiknum.
Karen skoraði fjögur mörk í úrslitaleiknum. vísir/ernir
Nice, lið landsliðskvennanna Karenar Knútsdóttur og Örnu Sifjar Pálsdóttur, tapaði með fimm marka mun, 25-20, fyrir Fleury í úrslitaleik deildabikarsins í Frakklandi í dag.

Nice tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með góðum sigri á Issy Paris í gær, 20-11, en liðið mætti öfjörlum sínum í dag.

Fleury náði strax góðri forystu og í hálfleik munaði sex mörkum á liðunum, 16-10. Fleury skoraði svo fyrstu fjögur mörkin í seinni hálfleik og þar með voru úrslitin ráðin.

Nice náði að laga stöðuna á lokamínútum en Fleury skoraði aðeins þrjú mörk á síðustu 18 mínútum leiksins. Það breytti þó engu um úrslitin. Lokatölur 25-20, Fleury í vil sem varð þar með deildabikarmeistari annað árið í röð.

Karen skoraði fjögur mörk í leiknum og var markahæst í liði Nice. Arna Sif komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×