Handbolti

Rúnar og félagar bundu endi á 13 leikja sigurgöngu Kiel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar og félagar voru hársbreidd frá því að vinna Þýskalandsmeistarana.
Rúnar og félagar voru hársbreidd frá því að vinna Þýskalandsmeistarana. vísir/afp
Rúnar Kárason skoraði fjögur mörk þegar Hannover Burgdorf gerði 30-30 jafntefli við Þýskalandsmeistara Kiel á heimavelli í dag. Hannover batt því endi á 13 leikja sigurgöngu Alfreðs Gíslasonar og lærisveina hans.

Hannover-menn voru hársbreidd frá því að vinna Kiel leikinn en þeir leiddu með tveimur mörkum, 30-28, þegar ein mínúta og tíu sekúndur voru til leiksloka.

Christian Dissinger minnkaði muninn fyrir Kiel með sínu ellefta marki áður en Christian Sprenger jafnaði metin þegar 21 sekúnda var eftir. Hannover fékk síðustu sóknina en Niklas Landin varði skot Mait Patrail og sá til þess að Kiel fékk annað stigið.

Hannover er í 9. sæti þýsku deildarinnar með 27 stig. Kiel er hins vegar í 3. sætinu með 39 stig, þremur stigum á eftir toppliði Rhein-Neckar Löwen. Alfreð og félegar eiga þó leik til góða.

Þá vann Gummersbach öruggan sigur, 21-31, á Leipzig á útivelli. Gunnar Steinn Jónsson var ekki á meðal markaskorara Gummersbach.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×