Körfubolti

Lebron James dreymir um ofurlið í NBA með öllum vinum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James, Dwyane Wade og Carmelo Anthony unnu gull saman á ÓL í Peking 2008 og hér fagna þeir því með Kobe Bryant.
LeBron James, Dwyane Wade og Carmelo Anthony unnu gull saman á ÓL í Peking 2008 og hér fagna þeir því með Kobe Bryant. Vísir/Getty
NBA-stórstjarnan LeBron James hefur það þegar á ferilsskrá sinni að setja saman súperlið í Miami Heat þegar hann, Dwayne Wade og Chris Bosh fundu leið til að spila saman í á suðurströnd Flórída en hann dreymir nú um annað ofurlið.

LeBron James snéri aftur heim til Cleveland Cavaliers sumarið 2014, Cleveland-liðið fór í lokaúrslitin í fyrra og er núna með besta árangurinn í Austurdeildinni. Það breytir ekki því að kappinn dreymir núna um að setja saman ofurlið. ESPN segir frá.

Nú vill hann fá tækifæri til að spila með öllum bestu vinum sínum í NBA-deildinni eða þeim Carmelo Anthony, Chris Paul og Dwyane Wade. Þeir Wade og James hafa orðið NBA-meistarar en Anthony og Paul hafa aldrei verið nálægt því að vinna titilinn eftirsótta.

„Ég vona það virkilega að við getum allir spilað saman áður en ferillinn okkar er á enda. Í það minnsta eitt tímabil en kannski tvö tímabil. Ég vona að ég, Melo, D-Wade og CP fáum tækifæri til að ná einu eða tveimur tímabilum saman," sagði LeBron James í viðtali um samband hans og Carmelo Anthony í Bleacher Report.

„Ég myndi ekki hika við að taka á mig launalækkun til þess að gæti orðið að veruleika," bætti James við. Hann hefur einnig sagt frá því að vinirnir hafi rætt þennan möguleika.

James, Anthony og Wade voru allir í nýliðavalinu 2003. James var valinn fyrstur, Anthony númer þrjú og Wade númer fimm. Paul var valinn fjórði í 2005-nýliðavalinu. Þeir hafa allir fjórir spilað saman því þeir unnu gullið saman með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Þeir hafa líka spilað saman í Stjörnuleiknum.

LeBron James og Dwayne Wade unnu tvo NBA-titla saman með Miami Heat en Wade hafði einnig unnið einn NBA-titil með Miami Heat áður en LeBron kom. Wade hefur spilað allan sinn feril með Miami Heat en allir hinir hafa skipt um lið á ferlinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×