Flugvélinni var flogið frá Barcelona og var á leið til Dusseldorf í Þýskalandi. Rannsókn hefur leitt í ljós að Lubitz átti við alvarlegt þunglyndi að stríða og hafði sýnt sjálfmorðstilhneigingu. Atvikið hefur vakið upp spurningar varðandi læknaskoðanir flugmanna og þann trúnað sem er til staðar á milli flugmanna og lækna.
Vinnuveitendur Lubitz vissu ekki um vandamál hans, þrátt fyrir að hann hefði farið til lækna minnst tólf sinnum á árunum fyrir atvikið.
Sjá einnig: Aðstoðarflugmaðurinn brotlenti vélinni viljandi
Skömmu eftir flugtak fór flugstjóri vélarinnar út úr stjórnklefanum og Lubitz læsti hann úti og hleypti honum ekki aftur inn. Heyra mátti á upptökum að flugstjórinn reyndi að brjóta sér leið inn í stjórnklefann áður en flugvélin brotlenti.
Eftir árásirnar á tvíburaturnana var öryggi stjórnklefa breytt svo að hægt væri að læsa þeim innan frá. Hægt er að taka hurðina úr lás með því að slá inn lykilorð, en þá hefur sá sem er þar inni um hálfa mínútu til að koma í veg fyrir að hurðin verði opnuð. Hér neðst má sjá þjálfunarmyndband um hvernig hurðirnar virka.
Flugöryggisstofnun Evrópu hefur í kjölfarið mælt með því að flugfélag gangi úr skugga um að aldrei séu færri en tveir inn í stjórnklefum flugvéla.
Samkvæmt BBC hafa fjölmörg flugfélög í Evrópu fylgt því eftir. Það að hafa tvo í flugstjórnarklefanum er þó ekki örugg leið til að koma í veg fyrir álíka ódæði.
Minnst tvö dæmi eru til um að flugvélum hafi verið brotlent vísvitandi þrátt fyrir að tveir hafi verið í flugstjórnarklefanum. Árið 1994 dóu 44 þegar flugvél var brotlent í Atlas fjöllunum. Sama gerðist í Japan 1982. Þá var flugvél brotlent um hálfum kílómetra frá flugbraut í Tokyo. Flugstjóri flugvélarinnar gerði það viljandi, en aðstoðarflugmaðurinn reyndi að koma í veg fyrir það.