Erlent

Sagði ráð­gjafa Pútíns hvernig hann gæti talað Trump til

Samúel Karl Ólason skrifar
Kirill Dmitríev (til vinstri) og Steve Witkoff (til hægri). Báðir hafa starfað sem sérstakir erindrekar forseta sinna í Rússlandi og í Bandaríkjunum. Nýjar upplýsinar um samskipti Witkoffs við Rússa hafa vakið spurningar um getu hans í starfi og heillindi.
Kirill Dmitríev (til vinstri) og Steve Witkoff (til hægri). Báðir hafa starfað sem sérstakir erindrekar forseta sinna í Rússlandi og í Bandaríkjunum. Nýjar upplýsinar um samskipti Witkoffs við Rússa hafa vakið spurningar um getu hans í starfi og heillindi. AP/Vyacheslav Prokofyev, Sputnik

Steve Witkoff, sérstakur erindreki Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, ráðlagði aðstoðarmanni Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, hvernig best væri fyrir rússneska forsetann að hafa áhrif á Trump. Witkoff sagði Júrí Úsjakóv, aðstoðarmanni Pútíns, hvernig Pútín ætti að reyna að selja Trump tiltekna áætlun um hvernig binda ætti enda á stríðið í Úkraínu.

Þá sagði Witkoff að Pútín ætti að hrósa Trump vegna friðaráætlunar hans um Gasaströndina, segja að Rússar styddu þá áætlun og átti Pútín einnig að segja að hann bæri virðingu fyrir Trump.

„Eftir það, mun þetta verða mjög gott símtal,“ sagði Witkoff við Úsjakóv.

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg en blaðamenn miðilsins hafa komið höndum yfir upptöku af samtali Witkoffs og Úsjakóvs. Sá síðarnefndi hefur í kjölfarið staðfest að samtalið átti sér stað.

Witkoff sagði Úsjakóv í október að Pútín ætti að hringja í Trump skömmu fyrir fund bandaríska forsetans með Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í þeim mánuði. Sá fundur snerist meðal annars um það hvort Bandaríkjamenn væru tilbúnir að selja Úkraínumönnum stýriflaugar, sem Rússar vildu koma í veg fyrir.

Þann 16. október, nokkrum dögum fyrir fundinn með Selenskí, hringdi Pútín í Trump og lýsti Trump því símtali í kjölfarið sem mjög jákvæðu. Hann ákvað að selja Úkraínumönnum ekki stýriflaugar.

Sjá einnig: Átti langt samtal við Pútín fyrir fundinn með Selenskí

Skömmu fyrir það símtal hafði Trump lýst yfir miklum pirringi í garð Pútíns. Trump sagði Pútín augljóslega ekki vilja binda enda á stríðið í Úkraínu og það liti mjög illa út fyrir rússneska forsetann.

Sagðist telja Pútín vilja frið

Þann sama dag ræddi Witkoff við Úsjakóv og sagðist Witkoff meðal annars bera mikla virðingu fyrir Pútín og að hann teldi að Pútín vildi semja um frið. Witkoff sagði að Bandaríkjamenn hefðu samið tuttugu liða friðaráætlun vegna Gasa og að hann gæti gert eitthvað svipað varðandi Úkraínu.

Witkoff lagði til að Pútín hringdi í Trump fyrir fundinn með Selenskí og ráðlagði Úsjakóv hvernig Pútín ætti að bera sig í símtalinu, eins og segir hér að ofan. Eftir það ræddi Witkoff við Kirill Dmitríev, rússneskan auðjöfur sem hefur starfað sem sérstakur erindreki Pútíns.

Þeir hittust svo í Miami seinna í október þar sem þeir eru taldir hafa talað um umdeilda friðaráætlun varðandi Úkraínu.

Bloomberg segir að eftir fundinn í Miami hafi Dmitríev og Úsjakóv talað saman og rætt þessa friðaráætlun og hvaða kostir væru í boði fyrir Rússa. Þá mun Dmitríev hafa lagt til að hann gæti deilt skjali með Witkoff, sem Bandaríkjamenn gætu notað við gerð áætlunar þeirra.

Dmitríev sagðist sannfærður um að Witkoff og félagar myndu styðjast mikið við það skjal við gerð friðaráætlunarinnar.

Í frétt Bloomberg segir að ekki hafi tekist að staðfesta hvaða skjal Dmitríev hafi verið að tala um og hversu mikil áhrif það hafði á 28 liða friðaráætlun Bandaríkjamanna sem olli miklu fjaðrafoki í síðustu viku. Þær munu hafa verið samdar af Witkoff, Jared Kushner, tengdasyni Trumps, og Dmitríev.

Segja Dmitríev hafa skrifað svipað skjal 

Blaðamenn rannsóknarmiðilsins The Insider, sem hafa lengi fjallað um Rússland og hafa meðal annars komið að því að bera kennsl á rússneska njósnara í Evrópu og víðar, þar á meðal njósnarana sem eitruðu fyrir Sergei Skripal og dóttur hans í Salisbury á árum áður, birtu í morgun grein um friðaráætlunina og að þeir hafi heyrt af mjög líku skjali í Rússlandi fyrir hálfu ári síðan.

Blaðamenn Insider segja að heimildarmaður þeirra, sem tengist yfirvöldum í Kreml, hafi sýnt þeim skjal sem líkist mjög upprunalegu tillögum Witkoffs. Þær tillögur hölluðu verulega á Úkraínumenn og var þeim víða lýst sem „óskalista“ Pútíns.

Þeir segja skjalið hafa verið skrifað af Dmitríev skömmu eftir að Trump sneri aftur í Hvíta húsið í janúar.

Meðal liða sem eru sambærilegir í bæði skjalinu frá Dmitríev og friðaráætlun Bandaríkjamanna eru liðir um viðurkenningu á eignarrétti Rússa á Krísmkaga, Lúhansk og Dónetsk, frystingu víglínunnar í Sapórisjía og Kerson og afnám viðskiptaþvingana og refsiaðgerða gegn Rússlandi.

Upprunalegu friðartillögurnar sögðu til um að Úkraínumenn þyrftu að gefa eftir umfangsmikið og víggirt landsvæði í Dónetskhéraði en það er eitthvað sem Úkraínumenn hafa útilokað.

Þá eru einnig ákvæði í skjali Dmitríevs um að Úkraína megi fá inngöngu í Evrópusambandið en ekki NATO og að ríki NATO megi ekki senda hermenn til Úkraínu.

Hvað á að gera við peningana?

Þar að auki eru ákvæði í skjali Dmitríevs um hvernig nota eigi frysta sjóði Rússa í Evrópu. Sá liður í friðaráætlun Bandaríkjamanna olli töluverðu ósætti.

Embættismenn Evrópusambandsins hafa um nokkurra mánaða skeið reynt að finna leiðir til að nota um þær fúlgur fjár sem frystar hafa verið í sjóðum Rússa í Evrópu. Mest er um að ræða peninga í bönkum í Belgíu, en í heildina eru þetta um 140 milljarðar evra, eða um 20,6 billjónir króna (20.600.000.000.000).

Vextirnir af þessum peningum hafa um nokkuð skeið verið notaðir til að fjármagna rekstur úkraínska ríkisins.

Nú vilja bakhjarlar Úkraínu nota peningana til að fjármagna uppbyggingu á hergagnaiðnaði í Úkraínu og til að fjármagna kaup á hergögnum frá Bandaríkjunum á næstu árum. Úkraínumenn vilja einnig nota þá til að fjármagna ríkisreksturinn þar í landi.

Samkvæmt bæði skjali Dmitríevs og upprunalegri friðaráætlun Bandaríkjamanna áttu hundrað milljarðar dala úr þessum sjóðum, og hundrað milljarðar frá ríkjum Evrópu, að vera notaðir af Bandaríkjamönnum til fjárfestinga í Úkraínu og áttu þeir að hirða helminginn af mögulegum hagnaði.

Losa ætti aðra sjóði Rússa í Evrópu og ætti restin að fara í sameiginlegan fjárfestingarsjóð Bandaríkjamanna og Rússa.

Heimildarmaður Insider sagði þetta góða leið til að veita rússneskum auðjöfrum tækifæri til að koma höndum yfir þessa peninga eða hagnað af þeim. Þannig myndu þessir peningar ekki tapast heldur gætu þeir verið notaðir svo auðjöfrar tengdir Pútín gætu hagnast.

Kom vini sínum til varnar

Trump var spurður út í fregnirnar af Witkoff í gær en þá kom hann vini sínum til varnar. Hann sagðist ekki þekkja málið vel en var þó tilbúinn til að segja að þetta væru hefðbundnar aðferðir í viðræðum.

Trump sagði að Witkoff þyrfti að reyna að selja Úkraínumönnum og Rússum samkomulag og það væri það sem samningamenn gerðu. Forsetinn sagðist viss um að Witkoff talaði eins við Úkraínumenn.

Nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins virðast ekki sammála Trump og hafa kallað eftir því að Witkoff verði settur á hliðarlínuna. Brian Fitzpatrick, einn þeirra þingmanna, segir að um stórt vandamál sé að ræða. Stöðva þurfi þessa leynilegu fundi milli rússneskra og bandarískra erindreka og segir hann að Marco Rubio, utanríkisráðherra, eigi að fá að halda utan um þessar viðræður.

Don Bacon, annar þingmaður Repúblikanaflokksins, hefur kallað eftir því að Witkoff verði rekinn. Hann hagi sér eins og hann sé á launum hjá Kreml og málið væri hið skömmustulegasta fyrir Bandaríkin, eins og fram kemur í frétt Wall Street Journal.


Tengdar fréttir

Fundað um frið í Abú Dabí

Bandarískir og rússneskir erindrekar komu saman í Abú Dabí í Sameinuðu furstadæmunum í morgun. Þar stendur til að ræða frið í Úkraínu og tillögurnar sem fyrir liggja. Ólíklegt þykir að Rússar muni samþykkja þessar tillögur, sem hafa tekið nokkrum breytingum frá því þær litu fyrst dagsins ljós.

Skrifa ný drög að friðaráætlun

Bandarískir og úkraínskir erindrekar hafa sett saman ný drög að friðaráætlun, samkvæmt yfirlýsingum þarlendra stjórnvalda. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að viðræður Úkraínumanna og Bandaríkjamanna í dag hafi skilað árangri. Aftur á móti væri nokkuð í land.

Hafna kröfu Rússa um undanhald frá Dónetsk

Erindrekar og embættismenn frá Bandaríkjunum, Úkraínu og öðrum ríkjum Evrópu koma saman í Genf í Sviss í dag þar sem ræða á umdeildar friðartillögur sem eiga að  koma frá Bandaríkjamönnum, varðandi stríðið í Úkraínu. Úkraínskir og evrópskir erindrekar eru sagðir tilbúnir til að samþykkja þó nokkra af liðum ætlunarinnar en ætla að krefjast töluverðra breytinga.

Þingmenn segja eitt en Rubio annað: Margsaga um uppruna og tilgang friðartillagnanna

Bandarískir þingmenn sögðust í gærkvöldi hafa rætt við Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og að hann hefði sagt þeim að friðartillögur sem Bandaríkjamenn væru að reyna að fá Úkraínumenn til að samþykkja væru „óskalisti“ Vladimírs Pútín, forseta Rússlands. Þingmennirnir höfðu eftir Rubio að tillögurnar mörkuðu ekki raunverulega afstöðu Bandaríkjanna.

Jafngildi uppgjöf fyrir Úkraínumenn

Úkraínumenn gætu alveg eins gefist upp ef þeir samþykkja þá friðaráætlun sem Bandaríkjamenn og Rússar hafa samið, að mati formanns utanríkismálanefndar Alþingis. Evrópskir leiðtogar ætla ásamt Úkraínumönnum að leggja til gagntillögur. „Við munum halda áfram að vopna Úkraínumenn,“ segja þjóðarleiðtogar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×