Körfubolti

Helena: Mjög gott eftir alla dramatíkina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena fagnar með liðsfélögunum í kvöld.
Helena fagnar með liðsfélögunum í kvöld. Vísir/anton
„Það vilja allir gullmedalíu um hálsinn og þess vegna er maður í þessu,“ sagði hún eftir að Haukar urðu deildarmeistarar í Domino's-deild kvenna í kvöld.

„Nú erum við með heimaleikjaréttinn og það skiptir okkur miklu máli því við höfum ekki tapað leik hér á Ásvöllum í allan vetur. Nú erum við líka á ellefu leikja sigurgöngu sem er ágætt.“

Sjá einnig: Haukar deildarmeistarar 2016

Haukar lentu í smá basli með botnlið Hamars í kvöld en sigldu fram úr í fjórða leikhluta.

„Við héldum að þetta hefði verið komið í þriðja leikhluta og hættum að spila. Þær voru hins vegar ekkert hættar og gáfu okkur góðan leik. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið skemmtilegra fyrir áhorfendur svona.“

Það hefur gengið á ýmsu í herbúðum Hauka í vetur. Liðið fékk Chelsie Schweers á miðju tímabili og hún fór svo frá liðinu, auk þess sem að ýmsar breytingar voru gerðar á þjálfaraliði Hauka.

Sjá einnig: Haukar láta Chelsie Schweers fara

„Við lentum í tveimur atvikum í vetur. Annars vegar þegar Chelsie kom og svo þegar hún fór. Auðvitað var mikið drama í kringum það en liðið er á frábærum stað í dag.“

„Við þurftum að koma saman og gerðum það. Yngri stelpurnar hafa stigið upp og Pálína hefur verið frábær eftir að Chelsie fór. Þetta hefur verið mjög gott.“

Sjá einnig: Chelsie tók heilmikið frá mér og öllu liðinu

Haukar mæta Grindvík í undanúrslitum úrslitakeppninnar og Helena segir að það verði gaman að mæta þeim gulklæddu.

„Þetta er hörkulið. Við töpuðum fyrir þeim í bikarnum og okkur finnst að við þurfum að sýna að við eigum eitthvað inni á móti þeim. Þetta verður hörkusería.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×