Skoðun

Hvað er títt af Tortólu?

Arngrímur Thorlacius skrifar
Ég vann í hjáverkum við þýðingar um langt árabil. Þá komu oft upp álitamál um áður óþýdd orð, þ.e. hvort þýða bæri með nýsmíði eða aðlögun tökuorðs. Nú virðist orðið Tortóla komið til að vera, þ.e. í víðtækari merkingu en sem staðarheiti.

Tortóla beygist eins og bóla eða eins og ilmandi fjóla, allt eftir því hvaða flokk maður kýs. Að finna aurum sínum stað þar syðra mætti því nefna Tortólusetningu, sbr. bólusetning. Í slíkum fylgsnum er meðal annars varðveitt fé sem fengið er með fjárkúgunum, þrælahaldi, nauðgunum kvenna og barna, nú eða leigumorðum.

Til að fylgsnið gagnist fyllilega verður það að hafa hreinsibúnað til peningaþvættis, sem felst í því að laða til sín skár fengið fé til íblöndunar. Falsaður fimmþúsundkall er hvergi betur geymdur en í bunka með tíu ófölsuðum. Með því að varðveita aurana sína eða bara að skrá fyrirtæki sín þarna eru menn að hjálpa til við voðaverkin.

Það er kannski eðlilegt að fremstu ráðamenn þjóðarinnar vilji leyna slíkum eignum og þræti fyrir þegar í harðbakkann slær, en það er ekki eðlilegt að þeir skuli eiga þær. Og að láta sér detta í hug að bjóða sig fram til æðstu trúnaðarstarfa þjóðfélagsins án þess að flytja sjóðina í siðað umhverfi er yfirgengilegt.

Það verður því að teljast harla kynlegt að íslenskir fjölmiðlamenn skuli hafa látið landsfeðurna komast upp með að ræða þetta eins og eitthvert lagatæknilegt atriði um skattskil. Skattaundanskot stjórnarherra væru kapítuli út af fyrir sig, en þetta er annað og meira. Mér persónulega er slétt sama hvernig skattframtölin líta út. Á ég að reikna með að þeir sem segja ekki frá eða jafnvel rangt frá á opinberum vettvangi færi allt satt og rétt í framtalið? Og á hverju ætti það að byggja? Ársskýrslu frá Tortólu?

 „Löglegt en siðlaust" virðist vera þessu fólki óþekktur frasi. Hér hefur verið farið í hvívetna eftir reglum og ÞESS VEGNA er ekkert siðferðilega rangt við gjörningana. Ef við hefðum reglur og lög yfir bókstaflega allt þyrftum við kannski ekkert siðferði. Og það er svona fólk sem hefur að atvinnu að setja lög og reglur okkur hinum til handleiðslu.

Sú sérkennilega staðhæfing forsætisráðherrans míns fyrrverandi, að RÚV eða aðrir íslenskir fjölmiðlar hafi lagt hann í einelti er í besta falli barnaleg. Það var einmitt skortur á gagnrýnni fjölmiðlun sem kom þessum manni í valdastólinn. Fólk sem fylgst hafði með í erlendum fjölmiðlum horfði í forundran á þegar gæðingurinn sló sjálfan sig til riddara (hestur á hestbaki?) með lýðskrumi á áður óþekktum skala, án teljandi mótbára frá íslenskum fjölmiðlum.

Hrói Höttur endurfæddur, ætlaði að taka hundruð milljarða frá erlendum hrægömmum og dreifa meðal langþjáðra hrunsþolanna. Og svo kemur á daginn að hann er sjálfur hrægammur! En viti menn, hann segist vera góður gammur. Og efndirnar, rammíslenskir peningar úr einum vasa í annan.

Á flestum málum eru margar hliðar. Með skírskotun til máltækis um flís eða bjálka í augum fólks, veltir maður fyrir sér hvort Tortólureiðin sé e.t.v. nauðbeygður flótti frá veruleikanum. Er ekki mergurinn málsins að við Íslendingar erum svo óheppnir með kjósendur?




Skoðun

Sjá meira


×