Handbolti

Strákarnir fengu skell í Noregi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Róbert Gunnarsson í leik gegn Noregi á EM í janúar.
Róbert Gunnarsson í leik gegn Noregi á EM í janúar. vísir/valli
Íslenska karlalandsliðið í handbolta fékk skell í seinni leik sínum gegn Noregi í Þrándheimi í dag. Strákarnir töpuðu með sjö marka mun í dag, 34-27.

Norska liðið tók frumkvæðið í leiknum frekar snemma og náði mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik. Munurinn var þó aðeins tvö mörk í leikhléi, 15-13.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Stefán Rafn Sigurmannsson atkvæðamestir í liði Íslands í fyrri hálfleik með þrjú mörk hvor. Guðmundur Árni Ólafsson og Rúnar Kárason skoruðu báðir tvö mörk.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleik skelfilega og var mest níu mörkum undir, 28-19. Strákarnir náðu að vinna muninn vel niður en gáfu svo aftur eftir á lokakaflanum.

Ísland tapaði fyrri leiknum gegn Noregi á sunnudag, 29-25. Miðað við þessa tvo leiki er verk að vinna hjá nýjum landsliðsþjálfara, Geir Sveinssyni. Fyrir þessa leiki hafði Ísland ekki tapað fyrir Noregi síðan 2008.

Noregur-Ísland  34-27 (15-13)

Noregur: Bjarte Myrhol 5, Magnus Jöndal 5, Kristian Björnsen 5, Sander Sagosen 4, Christoffer Rambo 4, Harald Reinkind 3, Espen Lie Hansen 3, Magnus Gullerud 2, Thomas Kristensen 1, Petter Överby 1, Christian O'Sullivan 1.

Ísland: Ásgeir Örn Hallgrímsson 5, Arnór Þór Gunnarsson 5, Rúnar Kárason 3, Róbert Gunnarsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 3, Ólafur Guðmundsson 2, Bjarki Már Elísson 2, Guðmundur Árni Ólafsson 2, Arnór Atlason 1, Bjarki Már Gunnarsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×