Körfubolti

Pippen: Við myndum sópa Warriors og ég myndi halda Curry undir 20 stigum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Myndi Curry bara skora 20 stig á móti Pippen?
Myndi Curry bara skora 20 stig á móti Pippen? vísir/getty
NBA-meistarar Golden State Warriors eru fjórum sigurleikjum frá því að bæta met Chicago Bulls frá 1996 yfir flesta sigurleiki í deildarkeppninni.

Bulls-liðið, með Michael Jordan í fararbroddi, vann 72 leiki og tapaði aðeins tíu tímabilið 1995/1996 áður en það fór svo alla leið í úrslitakeppninni og vann Seattle Supersonics í úrslitarimmunni.

Það var fjórði titill Bulls með Jordan innanborðs en liðið vann svo tvo til viðbótar og sex í heildina áður en gullaldarskeiðinu lauk. Golden State er búið að vinna 69 leiki og tapa átta, en það á fimm leiki eftir og verður að vinna fjóra af þeim til að bæta metið.

Scottie Pippen var lykilmaður í Chicago-liðinu á meistaraárum þess en hann er einn af betri leikmönnum sögunnar í NBA. Hann velkist ekki í vafa um að Chicago '96 myndi strauja Golden State-liðið í dag ef þau myndu mætast í ímyndaðri rimmu.

„Bulls myndi vinna í fjórum,“ sagði Pippen á í viðtali á samkomu í Houston á dögunum en ESPN.com greinir frá. Hann er sem sagt á því að Chicago myndi sópa Golden State, 4-0.

Aðspurður hvort Warriors myndi ekki ná einum leik ef Chicago myndi eiga eitt slæmt kvöld sagði Pippen: „Ég held að við myndum ekki eiga einn slæman leik.“

Pippen sér fyrir sér að hann myndi fá það erfiða verkefni að stöðva Stephen Curry, besta leikmann NBA-deildarinnar í dag og þann stigahæsta.

„Ég held að stærð mín og lengd myndi trufla Curry,“ sagði Pippen og bætti við að hann myndi halda ofurskyttunni undir 20 stigum í öllum leikjunum. Hann skorar rétt tæplega 30 stig í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×