Körfubolti

Golden State jafnaði metið hjá þessum köppum í nótt | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Rodman, Michael Jordan og Scottie Pippen.
Dennis Rodman, Michael Jordan og Scottie Pippen. Vísir/Getty
Eftir leiki NBA í nótt er ekki lengur bara eitt lið sem hefur náð að vinna 72 leiki á einu tímabili því lið Golden State Warriors bættist þá í hóp með liði Chicago Bulls frá 1995 til 1996.

Þetta var fyrsta tímabilið sem þeir Michael Jordan, Scottie Pippen og Dennis Rodman léku allir saman og NBA-deildin átti fá svör við þessari þrennu.

Michael Jordan (þá 32 ára) lék alla 82 leikina og var með 30,4 stig, 6,6 fráköst,  4,3 stoðsendingar og 2,2 stolna bolta að meðaltali í leik en hann hitti úr 42,7 prósent þriggja stiga skota sinna.

Scottie Pippen (þá 30 ára) lék 77 af 82 leikjum liðsins og var með í 67 af 72 sigrum Bulls þetta tímabil. Pippen var með 19,4 stig, 6,4 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Dennis Rodman (þá 34 ára) lék 64 af 82 leikjum liðsins og var með 5,5 stig, 14,9 fráköst og 2,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Bulls-liðið vann 57 af þessum 64 leikjum sem hann spilaði.

Það var bara einn annar leikmaður en Michael Jordan sem náði því að spila alla 82 leikina á þessu tímabili en það var einmitt Steve Kerr, núverandi þjálfari Golden State Warriors.

Kerr var með 8,4 stig og 2,3 stoðsendingar að meðaltali á 23,4 mínútum í leik en hann hitti úr 51,5 prósent þriggja stiga skota sinna og 92,9 prósent vítanna.

Toni Kukoc lék 81 leik og Ron Harper spilaði 80 leiki en þeir tóku báðir þátt í 71 sigurleik af þessum 72 sem liðið vann. Kukoc var með 13,1 stig, 4,0 fráköst og 3,5 stoðsendingar að meðaltali á aðeins 26,0 mínútum en Harper skoraði 7,4 stig í leik.

NBA-deildin hefur sett saman skemmtilegt myndband með þessu Chicago Bulls liðið sem vann 72 af 82 leikjum sínum fyrir tuttugu árum síðan.  Það má sjá myndbandið hér fyrir neðan.

NBA

Tengdar fréttir

NBA: Golden State jafnaði met Chicago Bulls | Myndbönd

Golden State Warriors vann í nótt sinn 72. leik á tímabilinu í NBA-deildinni í körfubolta og jafnaði með því met Chicago Bulls frá 1995-96 yfir flesta sigurleiki á einu tímabili. Warriors fær leik á miðvikudaginn til viðbótar til að bæta metið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×