Öll íslenska þjóðin fer ekki út til Frakklands á Evrópumótið þrátt fyrir að stór hópur hafi tryggt sér miða á leiki Íslands og sá hluti sem situr heima fær gott tækifæri til að búa til EM-stemmningu í miðbænum.
Knattspyrnusambandið tilkynnti í dag á heimasíðu sinni að Ingólfstorgið verði EM-torg.
Reykjavíkurborg og Höfuðborgarstofa hafa staðfest samstarf við KSÍ, Símann, Landsbankann, Icelandair, N1, Vífilfell, Borgun og Íslenskar Getraunir um viðburði á Ingólfstorgi á meðan á úrslitakeppni EM 2016 stendur í sumar.
Um er að ræða einstakan viðburð í íslenskri íþróttasögu sem fær að njóta sín í hjarta höfuðborgarinnar. Ætlunin er að endurskapa stemninguna á knattspyrnuleikvöngunum í Frakklandi á Ingólfstorgi og færa líf í miðborgina.
Settur verður upp risaskjár á Ingólfstorgi þar sem allir leikir mótsins verða sýndir, gestum og gangandi að kostnaðarlausu. Þá verður sýnt frá stemningunni á Ingólfstorgi í öllum sjónvarpsútsendingum frá EM í knattspyrnu.
Aðstandendur EM-torgsins munu nú hefja undirbúning og hyggjast búa stuðningsmönnum íslenska liðsins flottan heimavöll í hjarta höfuðborgarinnar á Ingólfstorgi.
Fyrsti leikur Evrópumótsins er á milli gestgjafa Frakka og Rúmena 10. júní næstkomandi en frá 11. júní til 22. júní verða síðan tveir til fjórir leikir á hverjum degi.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður á móti Portúgölum 14. júní en leikurinn hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma.
Sextán liða úrslitin hefjast síðan 25. júní.
