Lífið

„Úrslitin standa“

Birgir Olgeirsson skrifar
Jamala hafði sigur í Eurovision með samanlögðum stigum frá dómnefndum og áhorfendum. Rússinn Sergey Lazarev hlaut flest stig frá áhorfendum en Ástralinn Dami Im hlaut flest stig frá dómnefndum.
Jamala hafði sigur í Eurovision með samanlögðum stigum frá dómnefndum og áhorfendum. Rússinn Sergey Lazarev hlaut flest stig frá áhorfendum en Ástralinn Dami Im hlaut flest stig frá dómnefndum. Vísir/Getty
Úkraína er og verður sigurvegari söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, árið 2016. Svo segir í yfirlýsingu frá Eurovision-keppninni þar sem brugðist er við áskorun um að úrslit keppninnar verði endurskoðuð. Þrjú hundruð þúsund manns hafa ritað undir þá áskorun þegar þetta er ritað en fjölmargir voru óánægðir með úrslitin. 

Þá sérstaklega í ljósi þess að Rússland hlaut flest atkvæði frá áhorfendum en niðurstaða dómnefnda gerði það að verkum að rússneski flytjandinn Sergey Lazarev hafnaði í þriðja sæti með lagið You Are The Only One. Þeir sem hafa gagnrýnt þessi úrslit vilja meina að pólitík hafi tekið völdin.

Sigurlagið 1944, sem Jamala flutti fyrir hönd Úkraínu, fjallaði um nauðungaflutninga sovéskra hermanna á Tötörum af Krímskaga undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Rússar höfðu farið fram á að laginu yrði vísað úr keppni en forsvarsmenn Eurovision ákváðu að leyfa Jamölu að taka þátt því lagið vísaði í sögulegar staðreyndir. 

Í áskoruninni til Eurovision segir að sá fjöldi sem hefur lagt nafn sitt við hana sýni að fjölmargir séu þeirrar skoðunar að Jamala hafi ekki verið sú sem átti í raun að hafa sigur í keppninni. Er því farið fram á að úrslitin verði endurskoðuð.

Í tilkynningunni frá Eurovision kemur fram að forsvarsmenn hennar vonist til að þeir sem lögðu nafn sitt við áskorunin finni það í sér að meðtaka úrslitin, sem séu í samræmi við reglur keppninnar, og snúi sér að uppbyggilegum samræðum um hvernig bæta megi keppnina og styrkja. Jamala vann með samanlögðum stigafjölda frá bæði dómnefnd og áhorfendum. Ástralski flytjandinn Dami Im hlaut flest atkvæði frá dómnefndinni en Rússinn Sergey Lazarev flest frá áhorfendum. 

„Þau eiga bæði heiður skilið fyrir flutning á heimsmælikvarða, þeirra frábæru lög og hvernig þau tóku ósigrinum eins og sannir fagmenn. Þau unnu kannski ekki keppnina, en tóku úrslitunum sem sigurvegarar. Fyrir það fá þau lof frá okkur,“ segir í tilkynningunni. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×