Það eru stór tímamót hjá sænska framherjanum Zlatan Ibrahimovic í sumar en ekki bara þegar kemur að félagsskiptum hans frá Paris-Saint Germain heldur einnig að þeim málum sem snúa að sænska landsliðinu.
Zlatan Ibrahimovic er að yfirgefa frönsku meistarana í Paris Saint-Germain eftir fjögur mögnuð tímabil og er sterklega orðaður við Manchester United.
Zlatan Ibrahimovic vildi ekki staðfesta neitt um hvert hann væri að fara á blaðamannfundi með sænska landsliðinu í dag en sænska blaðið Dagens Nyheter segist hafa áreiðanlega heimildir fyrir því að Zlatan ætli að hætta að spila með sænska landsliðinu eftir EM.
Svíar spilar tvo vináttuleiki á heimavelli fyrir EM og leikirnir við Slóveníu og Wales verða því tveir síðustu landsleikir Zlatan Ibrahimovic á sænskri grundu.
Zlatan Ibrahimovic er fyrirliði sænska landsliðsins og hefur skorað 62 mörk í 112 landsleikjum. Hann lék sinn fyrsta landsleik 2001 en hefur aldrei komist lengra en í átta liða úrslit á stórmóti með landsliðinu og það gerðist á EM 2004, fyrir tólf árum síðan.
Zlatan Ibrahimovic kemur inn á EM í frábæru formi en hefur skorað 50 mörk í 51 leik með Paris-Saint Germain í öllum keppnum á tímabilinu þar af 38 mörk í 31 leik í frönsku deildinni þar sem hann skoraði heilum 17 mörkum fleiri en næstmarkahæsti maður.
Zlatan Ibrahimovic verður 35 ára í október og því að verða 37 ára þegar HM í Rússlandi fer fram 2018. Svíar komust á EM í gegnum umspilið þökk sé þremur mörkum frá Zlatan í tveimur leikjum á móti Dönum.
Það gæti orðið erfitt fyrir Svía að komast til Rússlands því Svíþjóð er þar í erfiðum riðli með Hollandi, Frakklandi, Búlgaríu, Hvíta-Rússlandi og Lúxemborg. Zlatan ætlar því að reyna að hætta á toppnum með því að ná besta árangri sænska landsliðsins á stórmóti í langan tíma.
Það hefur verið umræða í gangi í Svíþjóð um möguleikann á því að Zlatan Ibrahimovic spili með Svíþjóð á ÓL í Ríó en blaðamanni Dagens Nyheter finnst það mjög ólöglegt.
Zlatan Ibrahimovic verður þá væntanlega orðinn leikmaður Manchester United og upptekinn við að vinna sér sæti í byrjunarliði Manchester United.
Svíar eru í riðli með Ítölum, Írum og Belgum á EM í Frakklandi og fyrsti leikur liðsins er á móti Írland í París 13. júní.
