Viðskipti innlent

Atlaga að eigum í skattaskjólum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. vísir/Anton Brink
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi í gær um aðgerðir gegn skattsvikum. Bjarni vonast til að geta talað fyrir því á allra næstu dögum.

Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum til að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum. Má nefna takmörkun á nýtingu rekstrartaps félaga í lágskattaríkjum til frádráttar tekjum, takmörkun á samruna og skiptingu yfir landamæri og frekari skýringar á CFC-ákvæðinu, sem fjallar um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum.

Þá er lögð ríkari upplýsingaskylda á fjármálastofnanir og lögmenn auk þess sem innheimtumanni ríkissjóðs verði fengnar ríkari heimildir til að afla upplýsinga í því skyni að greina áhættu fyrr en ella. Að auki eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar breytingar á tollalögum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×