Antonio Rüdiger meiddist illa á hné á fyrstu æfingu þýska landsliðsins eftir að liðið mætti til Frakklands. Fljótlega kom í ljós að krossbandið var slitið og hann spilar ekki fótbolta næstu mánuðina.
Eins og sjá má í myndbandinu af atvikinu hér fyrir neðan þá tók það liðsfélaga hans ekki langan tíma að átta sig á því að að meiðsli Rüdiger væru alvarleg.
Antonio Rüdiger spilar með ítalska liðinu AS Roma og það var líklegt að hann yrði í byrjunarliði þýska landsliðsins í fyrsta leiknum á EM.
Þetta er mikið áfall fyrir Rüdiger og ekki bara vegna landsliðsins heldur einnig vegna ferils hans með félagsliðinu. Rüdiger hefur nefnilega verið orðaður við enska úrvalsdeildarliðið Chelsea að undanförnu.
Antonio Conte þekkir Rüdiger vel úr ítalska boltanum og vildi samkvæmt heimildum enskra fjölmiðla fá hann á Stamford Bridge þegar hann tekur við Chelsea eftir EM. Það má búast við því að ekkert verði af þeim félagsskiptum vegna þessara alvarlegu meiðsla.
Rüdiger hafði tekið stöðu Mats Hummels sem hefur verið að glíma við kálfameiðsli síðan í maí. Rüdiger hafði spilað allar 90 mínúturnar í undanförnum fimm leikjum Þjóðverja. Antonio Rüdiger hafði spilað við hlið Jerome Boateng í síðustu tveimur leikjum.
Antonio Rüdiger er 23 ára gamall og á að baki 11 landsleiki fyrir Þýskaland. Hann fékk sín fyrstu tækifæri hjá VfB Stuttgart en var fyrst lánaður til AS Roma og svo keyptur fyrir 9 milljónir evra.
Antonio Rudiger got injured during Germany's first training session in France. Still no diagnosis #EURO2016 pic.twitter.com/nWLWE6csqD
— Bayern & Germany (@iMiaSanMia) June 7, 2016