Skoðun

Hælisumsóknir er varða börn – áskorun til alþingismanna

Prestar Þjóðkirkjunnar skrifar
Ágætu alþingismenn.

Eins og við sjáum og heyrum í fréttum þessa daga, er mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd vísað úr landi. Oft er um að ræða fjölskyldur með börn sem hafa myndað hér félagsleg tengsl á meðan á meðferð umsóknar þeirra stóð. Sum börnin eru jafnvel veik. Oft eru aðstæður óviðunandi sem þau búa við á meðan á meðferð mála þeirra stendur. Dæmi eru um einstæða foreldra með tvö eða fleiri börn sem þurfa að búa í einu herbergi á gistiheimili innan um eingöngu fullorðna, oft karlmenn. Mikið hefur verið rætt um slæmar aðstæður flóttafólks í Grikklandi og Ítalíu undanfarin ár í fréttum, en síðan síðasta haust eru aðstæður flóttafólks í Evrópu jafn óviðunandi í ríkjum eins og Ungverjarlandi, Búlgaríu, Slóveníu, Rúmeníu, og jafnvel í Frakklandi o.fl.

Í þessum löndum er orðið algengt að fólk er neytt til þess að lifa á götunni og hefur enga tryggingu fyrir fæði eða skjóli. Slík staða er að sjálfsögðu óviðunandi og ómannúðleg fyrir alla, en sérstaklega þegar um börn, eldra fólk, sjúklinga og veikt fólk í viðkvæmri stöðu er að ræða. Óþarfi er að ræða um aðbúnað flóttafólks á Tyrklandi, þangað sem Evrópusambandið vísar nú flóttamönnum er komið hafa til Grikklands.

Ísland á aðild að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í þeim sáttmála, þriðju grein, stendur: „Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.“ Því miður hefur verið brotalöm á því hér á landi, þar sem börnum er vísað af landi brott, út í óvissu þegar best lætur, en þangað sem ömurlegar aðstæður bíða þegar verst er.

Við undirrituð, prestar Þjóðkirkjunnar sem öll höfum komið að málefnum hælisleitenda, viljum því hvetja til þess að Alþingi tryggi að farið verði eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hér á landi þegar um hælisumsóknir er snerta börn er að ræða.

Við hvetjum til að Alþingi leggi fram og samþykki tillögu þar að lútandi sem fyrst.

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Magnús Björn Björnsson

Sigfús Kristjánsson

Toshiki Toma

Þórhallur Heimsson

prestar Þjóðkirkjunnar

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×