Fótbolti

Rómverjarnir tryggðu Ítalíu sigur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniele de Rossi skoraði 18. landsliðsmark sitt.
Daniele de Rossi skoraði 18. landsliðsmark sitt. vísir/getty
Ítalía fer á sigurbraut á Evrópumótið í fótbolta en eftir fjóra leiki án sigurs vann liðið síðustu tvo vináttuleiki sína í undirbúningi þess fyrir átökin í Frakklandi.

Ítalía vann Skotland, 1-0, um helgina og lagði svo Finnland, 2-0, á heimavelli í kvöld með marki í sitthvorum hálfleiknum.

Antonio Candreva, leikmaður Lazio, skoraði fyrra markið úr vítaspyrnu á 27. mínútu og Daniele de Rossi, fyrirliði Roma, það síðara á 71. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu.

Báðir eru fæddir og uppaldir í Róm og spila fyrir Rómarliðin tvö. Candreva er 29 ára og á að baki 38 landsleiki en De Rossi er reynslumesti útispilari ítalska liðsins með 103 landsleiki.

Fyrir leikina gegn Skotlandi og Finnlandi var Ítalía án sigurs í fjórum vináttuleikjum. Liðið tapaði gegn Belgíu og Þýskalandi á útivelli en gerði jafntefli við Rúmeníu og Spán á heimavelli.

Ítalar eru í mjög erfiðum riðli á EM ásamt Belgíu, Svíþjóð og Írlandi en fyrsti leikur liðsins er gegn Belgum 13. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×