„Austurríkimenn voru að mynda hann í bak og fyrir, þeir voru sjúkir í hann,“ segir Herdís Magnúsdóttir, mamma Elmars Mána, í samtali við Vísi. „Það eru örugglega endalaust margir Austurríkismenn með myndir af honum.“
Mægðinin eru í um tuttugu manna hópi sem mætti til Frakklands til að fara á lokaleikinn í riðlinum en miðiarnir til Frakklands voru bókaðir 13. desember. Fimm dögum síðar fæddist Elmar Máni.
„Við gátum ekki pantað flug fyrir hann, hann var ekki kominn með kennitölu,“ segir Herdís. Þau bókuðu flug fyrir hann um leið og hann var skírður en þau þurftu að borga fullt gjald á leikinn fyrir snáðann sex mánaða.

Þvert á það sem margir eflaust halda segir Herdís það ekki hafa verið neitt mál að fara með soninn á leikinn.
„Hann er voðalega rólegur og góður. Við bara skiptumst á að vera með hann. Við gáfum honum vel að borða og ég fékk að taka mat og vatnsflöskur með á völlinn,“ segir Herdís og ber öryggisvörðum vel söguna. „Hann var bara kátur.“
Herdís segir Elmar Mána hafa verið vakandi á meðan á upphitun stóð en svo sofnað eftir um tíu mínútur. Hún hafi farið með hann út fyrir inn á milli því mjög heitt hafi verið á Stade de France.
„Hann var bara á bleyjunni og hafði það fínt.“

Elmar Máni vaknaði svo aftur um miðjan síðari hálfleik. Herdís segist hafa sett heyrnarhlífar á snáðann undir lokin þegar fagnaðarlætin urðu hvað mest.
Herdís segir Elmar hafa sýnt dótinu sínu meiri áhuga en leiknum en með í för voru litlar fígúrur úr teiknimyndunum Aulinn ég. Hópurinn reiknar ekki með því að fara til Nice á mánudaginn en ætla að finna sér góðan pöbb í París til að horfa á leikinn. Og Elmar Máni verður að sjálfsögðu með í för.
„Hann fer með á allt. Hann er einn af okkur.“
Það er skemmtileg staðreynd að amma Elmars Mána, Helga Matthíasdóttir, er móðir Heiðars Helgusonar. Hún var með í för í gær og hélt á snáðanum stóran hluta leiksins.