Innlent

Varað við ferðum ökutækja sem taka á sig mikinn vind

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vindstrengir á þessu svæði eru varasamir fyrir ökutæki sem taki á sig mikinn vind.
Vindstrengir á þessu svæði eru varasamir fyrir ökutæki sem taki á sig mikinn vind. Vísir/Andri marinó
Spáð er töluvirði hvassviðri á vestanverðu landinu í dag og varar Veðurstofan við ferðum á þessum slóðum á farartækjum sem taka á sig mikinn vind.

Er búist við að norðlæg átt fari vaxandi með morgninum á norðvesturhluta landsins og reikna má með að meðalvindur fari upp í og jafnvel yfir 15 metra á sekúndu í staðbundnum vindstrengjum.

Mun vindstrengurinn ná inn á Faxaflóa síðdegis í dag en annars staðar er von á hægum vindi. Í hugleiðingum veðurfræðings kemur þó fram að varasamt sé að taka einungis mið af staðbundnum hægum vindi þegar ferðast er um landið vestanvert í dag, skilin á milli strekkings og hægviðris séu skörp.

Útlit er fyrir allhvassan N og NA-vind  norðvestanvert landið í dag.  Reiknað er með hviðum allt að 25-30 metrum á sekúndu  frá því upp úr hádegi og fram á nótt á Snæfellsnesi í Staðarsveit og Breiðuvík.  Eins staðbundið á Barðastrandarvegi frá Reykhólasveit og allt vestur á Látrabjarg.



Vestanvert landið fær að finna fyrir því í dag.Veðurstofa
Veðurhorfur á landinu um helgina:

Norðaustan 10-18 metrar á sekúndu í dag um landið norðvestanvert og rigning. Mun hægari vindur og skúrir sunnan- og austanlands.

Norðaustlæg átt 3-10 metrar á sekúndu á morgun og skúrir eða dálítil rigning í flestum landshlutum.

Hiti 6 til 16 stig, hlýjast Suðvestantil. Hlýnar heldur fyrir norðan á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Norðaustan 5-10 m/s. Skýjað og dálítil væta norðan- og austanlands. Rigning með köflum um landið sunnanvert, en þurrt að kalla á Vesturlandi. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast á Faxaflóasvæðinu.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað og lítilsháttar væta fyrir norðan og austan með hita 5 til 10 stig. Skýjað með köflum og skúrir um landið sunnanvert, hiti 9 til 15 stig.

Á fimmtudag:

Hæg breytileg átt og bjartviðri sunnan- og vestanlands, hiti 10 til 16 stig. Rofar smám saman til fyrir norðan og austan og fer að hlýna þar.

Á föstudag:

Hæg suðaustlæg eða breytileg átt. Víða bjart veður, en smáskúrir á stöku stað. Hiti 11 til 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×