Sport

Aníta: Var mjög heppin með riðil

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aníta keppir í úrslitum á laugardagskvöldið.
Aníta keppir í úrslitum á laugardagskvöldið. vísir/epa
Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag hefur Aníta Hinriksdóttir tryggt sér sæti í úrslitum í 800 metra hlaupi á EM í frjálsum íþróttum í Amsterdam.

Aníta hljóp á 2:01,41 mínútum í dag og var með fjórða besta tímann í undanúrslitunum. Aníta var í sterkum riðli en hlaupakonurnar sem náðu fjórum bestu tímunum í undanúrslitunum voru allar í hennar riðli.

„Ég var mjög heppin með riðilinn sem ég lenti í. Ég sá ekkert um að halda hraðanum uppi í dag og var heppin að það var einhver sem tók af skarið. Þess vegna komst ég áfram,“ sagði Aníta Hinriksdóttir í samtali við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV eftir hlaupið í dag.

„Það getur allt gerst í úrslitunum og ég fæ núna tvo daga í endurheimt. Ég er mjög ánægð með að hafa sloppið inn í úrslitin.“

Aníta hljóp í undanrásunum í gær en hún segist ekki hafa fundið fyrir mikilli þreytu í hlaupinu í dag.

„Mér fannst ég ekki eyða mikilli orku í það en það kemur alltaf þreyta út af stressi og svona,“ sagði Aníta en hvernig líst henni á úrslitahlaupið á laugardagskvöldið?

„Það er alltaf svolítil klessa í 800 metra hlaupinu en ég þarf að staðsetja mig vel og vera tilbúin. Ég ætla að ná eins góðu sæti og ég get,“ sagði Aníta.

Viðtalið má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Ásdís komst í úrslit

Ásdís Hjálmsdóttir mun taka þátt í úrslitum í spjótkasti á EM en undankeppnin fór fram í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×