Sport

Bannar fjölskyldu sinni að mæta á leikina sína á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sérgio Santos í leik með brasilíska blaklandsliðinu.
Sérgio Santos í leik með brasilíska blaklandsliðinu. Vísir/Getty
Hinn fertugi Sérgio Dutra Santos á möguleika á því að vinna til verðlauna á sínum fjórðu Ólympíuleikum en hann vill alls ekki vita af fjölskyldumeðlimum sínum í stúkunni.

„Ég vil ekki að fjölskylda mín komni til að horfa á leikina. Ég vil ekki þurfa að hafa áhyggjur af því hvort að það sé allt í lagi með þau. Ég vil vita móður minni og fjölskyldu minni á öruggum stað. Þetta er alls ekki tími né stund til að hafa áhyggjur af börnunum mínum,“ sagði Sérgio Dutra Santos í samtali við Ólympíufréttastofuna.

Sérgio Dutra Santos vann gull í Aþenu 2004 og hefur síðan unnið silfur á síðustu tveimur leikum í Peking og í London. Hann var búinn að leggja landsliðsskónna á hilluna en ákvað að enda ferilinn á því að spila á heimavelli á Ólympíuleikum.

„Ég vil einbeita mér algjörlega að því að vinna. Undir brasilísku skyrtunni þá er ég samt venjulegur maður. Minn draumur var að spila blak. Nú er minn draumur að hætta að spila og gera ekkert annað en að vera með mínu fólki og heima hjá mér,“ sagði Sérgio Dutra Santos.

„Ég sakna fjölskyldunnar, barnanna og hestanna. Fjölskyldan er svo mikilvæg og nú ætla ég að einbeita mér að henni. Ég er búinn að missa af of miklu í gegnum tíðina." sagði Santos en fyrst fær blakið enn á ný hug hans allan.

„Ég ætla mér að ná í fjórðu verðlaunin. Ég er ánægður að vera orðinn fertugur en að vera enn að spila á þessu stigi. Ég er með medalíurnar á áberandi stað heima þannig að ég sé þær á hverjum degi. Það er pláss fyrir eina medalíu í viðbót og ég vil að hún sé úr gulli og engu öðru,“ sagði Santos.

Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Ríó verða í beinni útsendingu á Vísi frá klukkan 23.00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×