Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain hefur ekki dregið til baka stuðning sinn við Donald Trump, en fordæmir engu að síður orð Trumps í garð bandarískra múslimahjóna sem stigu á svið á landsþingi Demókrataflokksins í síðustu viku.
McCain, sem sjálfur var forsetaefni repúblikana árið 2008, segir að þótt flokkurinn hafi gert Trump að forsetaefni sínu þá veiti það honum ekki heimild til þess að niðra góðu fólki.
„Ég tel mig ekkert siðferðilega yfir Trump hafinn,” sagði McCain. „En ég skora á forsetaefnið að sýna gott fordæmi um það sem land okkar getur og á að standa fyrir.”
Hjónin komu fram á landsþinginu til að minnast sonar síns, sem var í Bandaríkjaher og féll í Íraksstríðinu.
Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.
Fordæmir Trump en styður hann samt áfram
Guðsteinn Bjarnason skrifar
