Bjarni útilokar ekki að röðun einstaklinga verði breytt en segir umboð þeirra sem fengið hafa kosningu mjög sterkt. „Þessi niðurstaða er auðvitað ekki bindandi og þetta er mál sem verður að skoða frá öllum hliðum," sagði hann.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hlaut fjórða sætið í prófkjöri í Suðurkjördæmi og Unnur Brá Konráðsdóttir þurfti að gera sér fimmta sætið að góðu.
Ragnheiður Elín sendi frá sér tilkynningu um miðjan dag í gær að hún myndi ekki sækjast eftir fjórða sætinu og myndi hætta í stjórnmálum að loknum kosningum.
Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri, sigraði í kosningunum í Suðurkjördæmi með nokkrum yfirburðum.
Miklar umræður hafa spunnist innan Sjálfstæðisflokksins um útkomu helgarinnar og sitt sýnist hverjum. Friðjón Friðjónssson, fulltrúi í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, segir að á endanum þurfi miðstjórn að samþykkja framboðslista.
„Ég mun ekki styðja einsleita lista eins og niðurstöður prófkjöranna um helgina skiluðu. Það er það minnsta sem ég get gert í stöðunni,“ segir Friðjón.

„Þegar fyrstu tölur voru lesnar upp í kraganum sagði formaður flokksins það strax vonbrigði að konur væru ekki að ná nægilega góðum árangri. Einnig var landsþing flokksins haldið í mars tileinkað 100 ára kosningarétti kvenna. Því gæti það verið vísbending um að þessi mál séu ofarlega á baugi stjórnar flokksins en hins almenna kjósanda.“
Hjá Samfylkingu munu Össur Skarphéðinsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir verða oddvitar lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum og Árni Páll Árnason fer fyrir flokknum í kraganum.
Nýliði mun verma efsta sætið í Norðvesturkjördæmi, Guðjón Brjánsson. Guðjón lagði Ólínu Þorvarðardóttur, sitjandi þingmann. Í Reykjavík stakk Eva Baldursdóttir sér fram fyrir tvo sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar, þau Helga Hjörvar og Valgerði Bjarnadóttur. Verður, ef marka má skoðanakannanir, ólíklegt að Valgerður nái á þing að loknum kosningum.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.