„Þetta var hörkuleikur og Kína er með mjög gott lið. Við vorum að prófa nýtt leikskipulag og mér fannst það ganga ágætlega,“ sagði Sara Björk.
„Við náðum að spila ágætlega á köflum en í seinni hálfleiknum þá duttum við of langt niður á völlinn og þær voru aðeins meira með boltann. Mér fannst við sýna góðan karakter að koma til baka og ná að jafna,“ sagði Sara Björk.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði jöfnunarmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok en þær kínversku höfðu þá skorað tvö mörk í seinni hálfleiknum eftir að Ísland var 1-0 yfir í hálfleik.
„Nýja leikkerfið gekk bara ágætlega miðað við það að við vorum að spila það í fyrsta skiptið. Þetta er skemmtilegt leikskipulag og við eigum líka eftir að vinna meira með það,“ sagði Sara Björk.
„Við fengum nokkur færi og þær líka. Þetta var opinn leikur og hefði getað farið á báða vegu. Við erum ánægðar með að koma til baka eftir að hafa lent undir,“ sagði Sara Björk.
„Þær kínversku voru betri en ég átti von á. Ég mundi ekki eftir svona rosalega góðum einstaklingum í liðinu. Þetta er mjög gott og vel spilandi lið,“ sagði Sara Björk.
„Mér fannst við vinna fyrir þessu jöfnunarmarki því við hlupum af okkur rassgatið. Við áttum klárlega þetta eina stig skilið,“ sagði Sara Björk.
Það er hægt að finna allt viðtalið við Söru Björk hér fyrir neðan.