Tómas Þór Þórðarson, fréttamaður, og Björn Sigurðsson (Böddi the great), kvikmyndatökumaður 365, fóru á stúfana í gærkvöldi og kíktu á stemninguna á fyrsta kvöldi hátíðarinnar.
Þeir fóru bæði í rigninguna fyrir utan Nasa þar sem Snorri Helgason, Tilbury og Moses Hightower voru að spila en þar fundu þeir eldri mann frá Þýskalandi sem ákvað að koma til Íslands og sjá íslenska tónlist.

Fréttateymi Vísis tók tónleikagesti tali en þarna var mætt fólk frá Ástralíu sem vildi sjá Norðurljósin og hlusta á íslenska tónlist, slóvakískar stelpur sem komust ekki inn á tónleikana sem þær langaði að sjá og eldri hjón frá Lúxemborg sem eru mætt til að sjá fallega náttúru landsins og hlusta á góða tónlist.
Björk er það sem flestir á Airwaves virðast vilja að sjá en erfitt var að fá miða á tónleika hennar. Ungir tvíburar héldu í smástund að þeir væru að vinna miða á tónleikana en svo var ekki.
Að lokum þurftu menn að næra sig fyrir svefninn og þá var um að gera að fá sér fisk og franskar.
Innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan. Að neðan má sjá myndasyrpu frá Andra Marinó Karlssyni, ljósmyndara Vísis.