Körfubolti

LeBron og Russell bestir í fyrstu viku NBA | Sjáið flottustu tilfþrif vikunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Russell Westbrook.
LeBron James og Russell Westbrook. Vísir/Getty
LeBron James hjá Cleveland Cavaliers og Russell Westbrook hjá Oklahoma City Thunder voru valdir bestu leikmennirnir í NBA-deildinni í körfubolta í fyrstu vikunni á nýju tímabili. James var bestur í Austurdeildinni en Westbrook bestur í Vesturdeildinni.

LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers unnu alla þrjá leiki sína í vikunni og hann var með 21,0 stig, 10,0 stoðsendingar og 8,3 fráköst að meðaltali í leik. James var með þrennu í fyrsta leik en hann skoraði 19 stig, tók 11 fráköst og gaf 14 stoðsendingar í sigri á New York Knicks í opnunarleiknum.

Russell Westbrook fór á kostum með Oklahoma City Thunder sem vann þrjá fyrstu deildarleiki sína eftir brotthvarf Kevin Durant. Westbrook var með þrennu í tveimur af þessum þremur leikjum sem og þrennu að meðaltali í leik.

Meðaltöl Westbrook voru 38,7 stig, 11,7 stoðsendingar og 12,3 fráköst. Hann átti sinn besta leik í sigri á Phoenix Suns þar sem hann var með 51 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar en þetta var fyrsta þrennan með 50 stigum síðan að Kareem Abdul-Jabbar afrekaði það 1975.

Russell Westbrook er þegar byrjaður að skrifa sögubókina á þessu tímabili en þar til núna hafði enginn NBA-leikmaður náð að vera með meira en 100 stig, 30 fráköst og 30 stoðsendingar í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.

Aðrir sem komu til greina voru Paul Millsap hjá Atlanta, Avery Bradley hjá Boston, Kyrie Irving hjá Cleveland, Andre Drummond hjá Detroit, Kevin Durant hjá Golden State, Anthony Davis hjá New Orleans, Damian Lillard hjá Portland, Kawhi Leonard hjá San Antonio og Toronto-leikmennirnir DeMar DeRozan og Jonas Valanciunas.

Hér fyrir neðan má síðan flottustu tilþrif vikunnar í NBA-deildinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×