Er þetta í fyrsta sinn síðan 1987 sem þeim sem fyrstur fær umboð til myndunar ríkisstjórnar mistekst ætlunarverk sitt en það var ekki óalgengt á 8. og 9. áratugnum að illa gengi að mynda ríkisstjórn. Þannig tók það tvo mánuði eftir kosningarnar 1974 að mynda ríkisstjórn og þrjá mánuði bæði eftir kosningarnar 1978 annars vegar og 1979 hins vegar.
Hvað það mun taka langan tíma núna að mynda ríkisstjórn er ekkert hægt að segja til um og segir Eva Heiða Önnudóttir, stjórnmálafræðingur, að erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvernig ríkisstjórn verði mynduð.

„Það er margt fordæmalaust bæði við þessar kosningar og stjórnarmyndunina þar sem það blasir ekki við nein augljós ríkisstjórn,“ segir Eva Heiða í samtali við Vísi.
Líklegast er talið að Katrín reyni að mynda einhvers konar fjölflokka stjórn yfir miðjuna og til vinstri. Eva Heiða segist ekki halda að það verði auðsótt en það sé heldur ekki hægt að útiloka neitt.
„Það er svo margt sem er óvanalegt og maður er ekki með eitthvað dæmi í fortíðinni sem maður getur endilega bent á.“
Eva Heiða segir að það myndi koma henni á óvart ef Katrín myndi fyrst snúa sér að Sjálfstæðisflokknum.
Meiri líkur á að það takist að mynda ríkisstjórn heldur en stjórnarkreppu
„En ég veit náttúrulega ekki hver er annar kostur hjá henni. Þá hefur fólk verið að nefna minnihlutastjórn sem möguleika en ég hef ákveðnar efasemdir um það einfaldlega af því það er ekki hefð fyrir því. Þá er ég ekki heldur viss um að kjósendur myndu skilja það eða „gúddera“ það,“ segir Eva Heiða.
Aðspurð telur hún meiri líkur á því að stjórnmálaflokkunum á þingi takist að mynda ríkisstjórn frekar en að hér verði stjórnarkreppa og að forseti þurfi að skipa utanþingsstjórn.
„Það verður á endanum mynduð hér ríkisstjórn en það verður kannski ekkert endilega stjórnin sem við sjáum fyrir. Ef Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn fara saman þá þurfa þau alltaf þriðja flokkinn og ég er alveg viss um að kjósendur beggja þessara flokka, og þá sérstaklega Vinstri grænna, myndi mislíka sú niðurstaða.“