Körfubolti

Dwayne Wade vann með Chicago á gamla heimavellinum | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dwayne Wade, leikmaður Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta, gerði það sem hann er vanur að gera í Miami í nótt og vann körfuboltaleik. Wade sneri í fyrsta sinn aftur á gamla heimavöllinn eftir að færa sig til Bulls en gestirnir höfðu betur í nótt, 98-95.

Wade hafði samt mátulega hægt um sig í stigaskorun og setti þrettán stig. Jimmy Butler skoraði 20 stig og Rajon Rondo skoraði 16 stig og tók tólf fráköst. Hassan Whiteside skoraði 20 stig fyrir Miami sem er aðeins búið að vinna tvo af fyrstu sjö leikjum sínum.

Steph Curry var stigahæstur Golden State sem vann öruggan sigur á Denver Nuggets á útivelli, 125-121. Curry skoraði í heildina 33 stig, tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar en hann hitti úr sjö af þrettán þriggja stiga skotum sínum.

Fyrir leikinn var Kevin Durant, leikmaður Golden State, búinn að skora að minnsta kosti 20 stig í 72 leikjum í röð en þeirri hrinu er lokið. Durant skoraði 18 stig í nótt, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Þá vann New Orleans Pelicans sinn fyrsta sigur í deildinni eftir að tapa fyrstu átta. Liðið lagði Milwaukee Bucks, 112-106, á útivelli en það var Anthony Davis sem innsiglaði sigurinn fyrir Pelicans undir lokin.

Davis skoraði 32 stig og tók átta fráköst en hjá Bucks var Jabari Parker stigahæstur með 33 stig auk þess sem hann tók níu fráköst.

Úrslit næturinnar:

Milwaukee Bucks - New Orleans Pelicans 106-112

Miami Heat - Chicago Bulls 95-98

Denver Nuggets - Golden State Warriors 101-125

Sacramento Kings - LA Lakers 91-101

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×