Gareth Bale, framherji Real Madrid og velska landsliðsins, endar eftirminnilegt ár á skurðarborðinu en ökklameiðsli kappans eru það alvarleg að þau kalla á aðgerð.
Bale fer í aðgerðina næsta þriðjudag en hann meiddist á ökkla í sigrinum á Sporting Lissabon í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið.
Spænskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að Bale verði frá í allt að fjóra mánuði eftir aðgerðina.
Þetta er búið að vera flott ár hjá Bale sem vann Meistaradeildina með Real Madrid liðinu og fór síðan alla leið í undanúrslitin á EM í Frakklandi með velska landsliðinu.
Gareth Bale getur því ekki tekið þátt í El Clasico á móti Barcelona sem fer fram 3. desember næstkomandi. Næsti leikur velska landsliðsins í undankeppninni er 24. mars á móti Írlandi og hann ætti nú að vera orðinn leikfær þá.
Gareth Bale er nýbúinn að framlengja samning sinn við Real Madrid til ársins 2022.
Bale hefur skorað 11 mörk í 20 leikjum í öllum keppnum með Real Madrid og Wales á þessu tímabili.
Gareth Bale hefur enn ekki skorað í deildarleik á móti Barcelona og biðin eftir fyrsta markinu á móti erkifjendunum lengist enn. Hann skoraði aftur á móti sigurmarkið í bikarúrslitaleiknum á móti Barca árið 2014.
